Lög félagsins

I. KAFLI
NAFN OG TILGANGUR

1. gr.
Félagið heitir Sjálfstæðisfélag Seltirninga. Lögheimili þess er í Seltjarnarnesbæ.

2. gr.
Markmið félagsins er að berjast fyrir þjóðlegri, víðsýnni framfarastefnu með hagsmuni allra stétta að leiðarljósi.
Grundvöllur stefnu þess er frelsi og sjálfstæði þjóðar og einstaklings, og jafnrétti allra borgara.

3. gr.
Markmiði þessu hyggst félagið ná með því:
Að vinna að sem mestu kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins við kosningar til alþingis og sveitastjórnar.
Að gangast fyrir félagsstarfi meðal sjálfstæðisfólks á félagssvæðinu.
Að koma á framfæri við kjörna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins ábendingum um sameiginlega hagsmunamál íbúa félagssvæðisins og vinna að framgangi þeirra.
Að fylgja skipulagsreglum flokksins eins og þær eru á hverjum tíma.


II. KAFLI

FÉLAGAR

4. gr.
Í félaginu geta allir sjálfstæðismenn verið, sem náð hafa 16 ára aldri og eru með lögheimili á Seltjarnarnesi.

5. gr.
Hver sá, er óskar eftir inngöngu í félagið, skal senda umsókn til stjórnar félagsins.

6. gr.
Félagsfundur getur að fenginni tillögu stjórnar og með 2/3 atkvæða vikið úr félaginu hverjum þeim, sem að áliti hennar brýtur lög félagsins eða vinnur gegn stefnu flokksins.


III. KAFLI

STJÓRN FÉLAGSINS OG STARFSEMI

7. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.
Milli aðalfunda fara stjórn, félagsfundir og nefndir, sem þessir aðilar kjósa sér til aðstoðar með málefni félagsins.

8. gr.
Stjórn félagsins skipa 5 aðalmenn að formanni meðtöldum, sem er kosinn sérstaklega. Að auki skulu kosnir tveir varamenn. Stjórnin skal kosin á aðalfundi til eins árs í senn. Meðstjórnendur í aðalstjórn skulu kosnir sameiginlega. Kosning skal vera bundin, þ.e. einungis má rita á atkvæðaseðla nöfn þeirra, sem stungið er upp á. Atkvæðaseðill er einungis gildur, ef á hann eru rituð jafnmörg nöfn og þeirra sem kjósa á. Skal hvert nafn á atkvæðaseðli hljóta 1 atkvæði. Á aðalfundi skal ennfremur kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara.

Stjórnin kýs sér sjálf varaformann, féhirði, ritara og skiptir að öðru leyti með sér verkum.

9. gr.
Stjórnin heldur fundi eins oft og þurfa þykir.
Óski tveir stjórnarmenn eftir fundi og senda um það skriflega ósk til formanns félagsins, er skylt að halda stjórnarfund.

10. gr.
Í félaginu skulu ennfremur vera eftirfarandi nefndir:
Ritnefnd, sem sér um útgáfustarfsemi félagsins, m.a. útgáfu á blaðinu Seltirningi
Fjáröflunarnefnd, sem sér um að afla félaginu tekna.
Húsnefnd, sem annast rekstur húseignar félagsins.
Lágmarksfjöldi nefndarmanna skal vera 3 félagar hverri nefnd.

11. gr.
Aðalfund félagsins skal halda fyrir lok febrúar ár hvert.
Til hans skal boða með minnst 7 daga fyrirvara, með dreifipósti eða tölvupóstsendingu til félagsmanna.

Tilkynna skal um framboð til formanns og stjórnar með minnst þriggja daga fyrirvara.
Allar kosningar á aðalfundi skulu vera bundnar og skriflegar ef óskað er eftir því.
Verði atkvæði jöfn ræður hlutkesti.

12. gr.
Á dagskrá aðalfundar skal vera:

  1. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.
  2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.
  3. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
  4. Tillögur um lagabreytingar.
  5. Ákvörðun félagsgjalds.
  6. Kjör formanns, stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
  7. Kjör fulltrúa í nefndir.
  8. Kjör í fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna á Seltjarnarnesi.
  9. Kjör fulltrúa í kjördæmisráð.
  10. Önnur mál.

Á hverju ári, að loknum aðalfundi, skal stjórn félagsins senda skrifstofu Flokksins skýrslu um störf félagsins á árinu.

13. gr.
Félagsfundir skulu haldnir svo oft sem stjórn félagsins telur líklegt til að efla félagið og styrkja málstað þess.
Fund skal halda, ef minnst 20 félagsmenn óska þess skriflega til stjórnarinnar.
Fundi félagsins skal boða eins vel og kostur er á.
Fundir skulu öllum opnir nema annað sé tekið fram í fundarboði.

14. gr.
Á fundum félagsins skulu rædd félagsmál, stjórnmál og önnur velferðarmál byggðarlagsins.

15. gr.
Aðeins fullgildir félagsmenn eiga kosningarétt og kjörgengi til hverskonar trúnaðarstarfa innan félagsins og þeirra stofnana flokksins sem félagið kýs fulltrúa til.


IV. KAFLI

ÁRGJALD OG FLEIRA

16. gr.
Árgjald félagsmanna skal ákveðið af aðalfundi hverju sinni. Þeir einir teljast fullgildir félagsmenn sem greitt hafa á aðalfundi, það árgjald, sem síðasti aðalfundur ákvað. Ellilífeyrisþegum er ekki skylt að greiða árgjald en halda samt fullum félagaréttindum.

17. gr.
Reikningstímabil félagsins er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.


V. KAFLI

LAGABREYTINGAR OG FLEIRA

18. gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf 2/3 hluta atkvæða allra fundarmanna til að breytingin nái fram að ganga. Lagabreytinga skal getið í auglýstri dagskrá aðalfundar.

19. gr.
Óheimilt er að veðsetja fasteign félagsins nema með samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða fullgildra félagsmanna á aðalfundi. Tilkynna skal um slíkt í fundarboði.

20. gr.
Óheimilt er að selja fasteign félagsins nema með samþykki aðalfundar og skal salan kynnt í fundarboði. Til að sala geti átt sér stað þarf minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða.

21. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á aðalfundi 28. febrúar 2019.
Lagabreytingar voru síðast gerðar á aðalfundi félagsins 11. maí 2017.