Saga Sjálfstæðisfélags Seltirninga

Ágrip af sögu félags, hrepps og bæjar.
Tekið saman af Margréti Pálsdóttur eftir ýmsum heimildum. 

Áður en Sjálfstæðisfélag Seltirninga var stofnað hafði Sigurjón Jónsson Helgafelli í Lambastaðahverfi verið í forsvari fyrir sjálfstæðisfélagi á Nesinu. Engin gögn hafa fundist um það félag en menn vissu af tilvist þess þó að starfsemin hefði legið lengi niðri.

Frumkvæði að stofnun Sjálfstæðisfélags Seltirninga átti Friðrik P. Dungal kaupmaður í Remedíu. Friðrik kom að máli við nokkra menn sem bjuggu á Nesinu um undirbúning að stofnfundi félagsins.

Félagið var stofnað 25. september 1959 í Valhöll við Suðurgötu í Reykjavík þar sem fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í höfuðborginni hafði þá aðsetur. Höfðu 120 óskað að gerast stofnaðilar félagsins, en 38 mættu á stofnfundinn. Á Nesinu bjuggu þá um 1300 manns. Fyrsti formaður félagsins var kjörinn frumkvöðullinn Friðrik P. Dungal, Útsölum. Aðrir í stjórn voru Snæbjörn Ásgeirsson, Nýlendu, Ásgeir M. Ásgeirsson, Fögrubrekku, Karl Bergmann Guðmundsson, Vegamótum og Tryggvi Gunnsteinsson, Tryggvastöðum. Varamenn í stjórn voru Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Skólabraut 17 og Aðalsteinn Þorgeirsson, Nesi. Endurskoðendur voru kosnir Sigurður Stefánsson, Skólabraut 17 og Jón Guðmundsson, Nýjabæ.

Pólitískst umhverfi var fremur dauft í hreppnum um þessar mundir og má til marks um það m.a. benda á að 1958 hafði verið samið um lista en kosningar ekki farið fram.

Strax eftir stofnun Sjálfstæðisfélags Seltirninga biðu stjórnarinnar þau verk að halda framboðsfund vegna alþingiskosninganna sem fóru fram um haustið 1959 í aðdraganda Viðreisnarstjórnarinnar frægu. Fundurinn var haldinn í salarkynnum frystihúss Ísbjarnarins, hins öfluga fyrirtækis á Hrólfskálamel. Meðal framsögumanna voru Ólafur Thors formaður Sjálfstæðisflokksins og Matthías Á. Mathiesen.Var sá síðarnefndi þá í framboði til þings í fyrsta sinn aðeins 27 ára gamall og náði kjöri við mikla hrifningu flokkssystkina sinna sem unnið höfðu ótrauð að sigri hans.

Fyrsta sjálfstæða framboð til sveitastjórnar á vegum Sjálfstæðisfélags Seltirninga var síðan við kosningarnar árið 1962. Hafin var útgáfa “Seltirnings”, sem æ síðan hefur verið málgagn félagsins og geymir nú mikla sögu. Átti Ólafur Egilsson, þá blaðamaður á Morgunblaðinu og laganemi, hugmyndina að heiti blaðsins.

Yngra fólki í hreppnum hafði nú hlaupið kapp í kinn frá því sem var fjórum árum áður. Var því ekki um það að ræða að semja um lista heldur kjósa. Bar listi sjálfstæðismanna sigur úr býtum og fékk þrjá af fimm hreppsnefndarfulltrúum kjörna, þá Jón Guðmundsson, Karl B. Guðmundsson og Sigurgeir Sigurðsson.

Björn Þorláksson lögfræðingur var fyrsti sveitastjóri Seltjarnarneshrepps. Var hann ráðinn 1957 og starfaði hann til loka árs 1959. Var starfið auglýst og við því tók Jón G. Tómasson lögfræðingur, síðar m.a. borgarritari og borgarlögmaður í Reykjavík. Hann starfaði síðan hjá hreppnum fram á fyrri hluta árs 1963. Þá var ráðinn Bjarni Beinteinsson lögfræðingur og starfaði hann til loka árs 1965.

Sigurgeir Sigurðsson varð síðan sveitastjóri í janúar 1965 og fyrsti bæjarstjóri 9. apríl 1974 þegar Seltjarnarnes varð bæjarfélag.

Félagsstarf var með miklum blóma og fundir vel sóttir á þessum árum, mikið rætt um pólitík og framfaramál hreppsins. Húsnæði til fundarhalda lá ekki á lausu og fékk félagið að halda fundi ýmist í matsal Ísbjarnarins eða í kjallara fyrsta hluta Mýrarhúsaskóla og Valhöll. Fyrstu 30 árin stóð félagið fyrir þorrablótum sem voru vel sótt af Seltirningum og komust oft færri að en vildu. Skemmtiatriði öll voru heimasmíðuð og var oft gengið nærri hreppsnefndarmönnum en allt þó í gamni gert.

Þegar sjálfstæðismenn náðu meirihluta í hreppnum 1962 var mjög margt ógert sem ekki þoldi bið. Malbikuð gata var ekki til í hreppnumm og holræsi vantaði mjög víða. Með fyrstu verkum nýs meirihluta var að hefjast handa við gatnakerfið og hraða byggingu nýja Mýrarhúsaskólans. Mjög lítið hafði breyst í hreppnum á árunum 1950 – 1960 og vildi nýr meirihluti ganga frá skipulagi íbúðahverfa og hefja uppbyggingu sem fyrst. Þessi mál voru oft rædd á almennum fundum í félaginu og sýndu íbúar öllum framfaramálum hreppsins mikinn áhuga.

Allt land á Seltjarnarnesi var í einkaeign og tóku nú við flóknir samningar um það land sem fór undir byggingar, götur, leikvelli og opin svæði. Landeigendur seldu lóðir samkvæmt samningum við hreppsnefnd og götur voru lagðar og þjónusta fylgdi í kjölfarið. Árið 1965 hófust tilraunaboranir eftir heitu vatni á Seltjarnarnesi og skiluðu þær þeim árangri að hitaveita gat tekið til starfa 1972. Fyrsti hluti íþróttamiðstöðvar var reistur 1967 og batnaði þá mjög aðstaða barna og unglinga. Fljótlega var stofnað íþróttafélag og því gefið nafnið “Grótta”.Veglegt anddyri íþróttahússins var um árabil notað til fundarhalda og muna margir eftir vinsælum spilakvöldum Sjálfstæðisfélagsins sem þar voru haldin.

Á þessum spilakvöldum mættu hreppsnefndarfulltrúar og þingmenn flokksins og var hléið notað til framsögu og umræðu um einhvern málflokk sem ofarlega var á baugi í hreppnum. Félagsheimilið var tekið í notkun 1971. Fluttist mest öll félagsstarfsemi þangað og fylgdi því mikil gróska. Mörg félög voru stofnuð á þessum árum.

Um þetta leyti fóru hreppsnefndarmenn að huga að bæjarstofnunum en mikið óhagræði fylgdi því fyrir íbúa að þurfa að sækja mál sín til sýslumannsins í Hafnarfirði. Í apríl 1974 fékk hreppurinn kaupstaðarréttindi. Það gekk ekki átakalaust að fá bæjarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi en hafðist að lokum. Um þetta mál ríkti einhugur í hreppsnefnd. Seltjarnarnes var orðið eftirsóknarvert til búsetu og byggðist upp mjög hratt. Þjónusta við bæjarbúa var sett í öndvegi og aukin eftir því sem byggðin efldist. Hitaveitan var komin í hvert hús. Valhúsaskóli og sundlaug byggð og allar götur voru frágengnar um leið og byggin við þær reis.

Allan þennan tíma var það Sjálfstæðisfélag Seltirninga og forysta þess sem stjórnaði ferðinni. Félagið stóð fyrir prófkjörum um framboðslista sem hefur verið almenna reglan við kosningar. Það fólk valdist á lista félagsins sem hafði starfað í félaginu um lengri eða skemmri tíma og fengið þar reynslu af málefnum samfélagsins. Félagið hafði að sjálfsögðu veg og vanda af kosningavinnu og lögðu þar margir mikið af mörkum.

Sigurgeir Sigurðsson lét af störfum sem bæjarstjóri 2002 eftir að hafa setið í sveitastjórn og bæjarstjórn í fjóra áratugi. Varð Jónmundur Guðmarsson, þá forseti bæjarstjórnar, arftaki hans. Árið 2009 var Jónmundur síðan ráðinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og tók þá enn forseti bæjarstjórnar, Ásgerður Halldórsdóttir, við bæjarstjórastarfinu og leiðtogahlutverki.

Seltirningar eru hreyknir af bænum sínum. Með hófsemd í álögum, góðri þjónustu og þeirri náttúrufegurð sem bæinn prýðir er Seltjarnarnes orðið eitt eftirsóttasta sveitarfélag landsins. Sjálfstæðisfélag Seltirninga mun eftir sem áður standa dyggan vörð um blómlegt samfélag og leitast við að búa sem best í haginn fyrir íbúa á öllum aldri.

Formenn Sjálfstæðisfélags Seltirninga frá upphafi:

  • 1959 – 1965  Friðrik Dungal
  • 1965 – 1970  Snæbjörn Ásgeirsson
  • 1970 – 1972  Guðmundur Hjaltason
  • 1972 – 1976  Guðmar E. Magnússon
  • 1976 – 1978  Gísli Ólafsson
  • 1978 – 1984  Skúli Júlíusson
  • 1984 – 1985  Jóhannes Jónsson
  • 1985 – 1988  Sigurveig Lúðvíksdóttir
  • 1988 – 1992  Hildur Jónsdóttir
  • 1992 – 1994  Ásgerður Halldórsdóttir
  • 1994 – 1996  Ingimar Sigurðsson
  • 1996 – 1998  Árni Á. Árnason
  • 1998 – 2004  Þóra Einarsdóttir
  • 2004 – 2005  Sigrún E. Jónsdóttir
  • 2005 – 2009  Elín H. Guðmundsdóttir
  • 2009 – 2017  Guðmundur J. Helgason
  • 2017 – 2019  Hannes Tryggvi Hafstein
  • 2019 –  2010 Kristján Hilmir Baldursson
  • 2020 –           Örn Viðar Skúlason