Vinna er hafin við endurgerð forvarnastefnu Seltjarnarnesbæjar og hefur starfshópur verið settur á laggirnar sem hefur þegar hafið störf. Hann er skipaður sjö fulltrúum:
• 1 fulltrúi frá Leikskóla Seltjarnarness
• 2 fulltrúar frá Grunnskóla Seltjarnarness (starfsmaður og nemandi á unglingastigi)
• 1 fulltrúi frá félagsmiðstöðinni Selinu
• 1 fulltrúi frá íþróttafélaginu Gróttu
• 1 fulltrúi frá félagi eldri borgara á Seltjarnarnesi
• Sviðsstjóri fjölskyldusviðs
Ljóst er að mikil vinna er framundan því margir samfélagslegir þættir hafa breyst frá því forvarnastefnan var síðast endurskoðuð. Við skipan hópsins var lögð áhersla á að heyra raddir fulltrúa helstu stofnana og félaga sem sinna málefnum er varða lýðheilsu og forvarnir hjá hinum ýmsu aldurshópum á Seltjarnarnesi.
Raddir allra heyrist
Raddir allra eru mikilvægar og áhugavert er að heyra rödd eldri nemenda grunnskólans um hvernig þeir vilja móta og stuðla að betri lýðheilsu og forvörnum í sínum aldurshópi og hvernig þeir telja best að ná til aldurshópsins. Einnig er nýnæmi að fulltrúi félags eldri borgara á Seltjarnarnesi eigi fulltrúa í starfshópnum, en aukin áhersla hefur verið undanfarin ár á að efla forvarnir og lýðheilsu eldri bæjarbúa. Fyrsti fundur starfshópsins hefur þegar verið haldinn, en þar var rætt um markmið og leiðir og hlutverk hvers og eins til að fylgja eftir þeim áætlunum sem stefnt verður að.
Næstu skref
Samráðshópur um áfengis- og vímuefnavarnir hefur verið endurvakinn og kallaður saman til skrafs og ráðagerðar um hvað við getum gert betur í málefnum ungmenna í tengslum við forvarnastarf. Í hópnum eiga sæti allir þeir aðilar sem koma á einhvern hátt að forvarna- og frístundastarfi innan bæjarfélagsins, til að mynda fulltrúar skóla, foreldrafélaga, íþróttafélags, kirkju, golfklúbbs, barnaverndar, félagsþjónustu o.fl. Auk þess á lögreglan fulltrúa í hópnum. Þegar fyrstu drög að nýrri forvarnastefnu liggja fyrir verða þau send til umsagnar á hina ýmsu hagsmunaðila á Seltjarnarnesi, meðal annars fulltrúa þessa samráðshóps.
Verkefnastjóri forvarna- og frístundastarfs
Samþykkt bæjarstjórnar liggur fyrir um að setja í fjárhagsáætlun næsta árs starf verkefnastjóra forvarna- og frístundastarfs og mun viðkomandi takast á við nýjar áskoranir í anda nýrrar forvarnastefnu. Hann mun hafa aðsetur í Selinu og auk þess að sinna almennum forvörnum og frístundastarfi mun hann sjá um málefni ungmenna á aldrinum 16-18 ára.
Foreldrar eru ein mikilvægasta fyrirmynd barna sinna. Mikilvægt er að þeir tali við börn sín um áfengi og önnur vímuefni og taki skýra afstöðu gegn því að þau prófi eða noti slík efni. Ábyrgð uppeldisstofnana eins og skóla og íþróttafélags á að sinna forvörnum er mikil og þær eiga að styðja við hlutverk foreldranna með almenna lýðheilsu barna og ungmenna að leiðarljósi. Við erum öll forvarnir og verðum að standa saman.
Hildigunnur Gunnarsdóttir, formaður fjölskyldunefndar