Grunnskóla Seltjarnarness skipt upp í tvo sjálfstæða skóla
Bæjaryfirvöld Seltjarnarnesbæjar ákváðu fyrr á þessu ári að kanna skyldi fýsileika þess að skipta Grunnskóla Seltjarnarness í tvo sjálfstæða skóla, Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla. Grunnskóli Seltjarnarness var á meðal 10 fjölmennustu skóla á landsvísu og var það mat skólanefndar að uppskipting skólans væri til þess fallin að auðvelda skólastjórnendum faglega yfirsýn og skapa um leið markvissari eftirfylgni og fjárhagslega stjórnun á málefnum hvers skóla. Einnig var ljóst að framlag frá Jöfnunarsjóði myndi hækka um tæpar 200 milljónir króna við uppskiptingu skólans. Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri vann að framgangi málsins í samvinnu við sviðsstjóra og skólanefnd og í kjölfarið staðfesti bæjarráð stjórnskipulag fyrir hvorn skóla fyrir sig, sem hafa nú tekið til starfa sem tveir sjálfstæðir skólar. Kristjana Hrafnsdóttir er skólastjóri Mýrarhúsaskóla og Helga Þórdís Jónsdóttir skólastjóri Valhúsaskóla. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn eru þakklátir fyrir hversu vel breytingin hefur mælst fyrir og eru sannfærðir um að skólarnir verði enn öflugri en áður.
Viðbragðstími neyðaraðila
Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri hefur ítrekað gert athugasemdir við lakan viðbragðstíma slökkviliðs og sjúkraflutninga á Seltjarnarnesi en hann á sæti í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Viðbragðstími slökkviliðs og sjúkraflutninga í vestasta hluta borgarinnar og á Seltjarnarnesi er ekki innan þeirra viðmiða sem kveðið er á um í reglugerðum og samningum. Þetta hefur þótt óviðunandi og lagði bæjarstjóri því fram tillögu á stjórnarfundi um að kanna möguleika á staðsetningu sjúkrabifreiða á Seltjarnarnesi eða í vesturbæ Reykjavíkur. Nýverið var ákveðið að fjölga þyrfti slökkvistöðvum um tvær og færa tvær núverandi stöðvar til að bæta viðbragðstíma, m.a. á Seltjarnarnesi. Niðurstaða úttektar sem ráðist var í var að best væri að staðsetja sjúkrabifreið við Eiðistorg eða Austurströnd en þannig aukast líkurnar á því að viðbragðstíminn verði innan viðurkenndra tímamarka. Stjórn
Slökkviliðsins samþykkti að fela slökkviliðsstjóra og bæjarstjóra Seltjarnarness að finna hentugt húsnæði fyrir útkallseiningu sjúkrabifreiða á álagstímum.
Aukin tíðni sorphirðu við heimili á Seltjarnarnesi
Bæjarstjórn hefur samþykkt að auka tíðni sorphirðu á Seltjarnarnesi. Hirðutíðni fyrir
pappír/pappa og plastumbúðir er nú á 21 dags fresti en ekki á 28 daga fresti eins og áður var. Hirðutíðni fyrir matarleifar og blandaðan úrgang er áfram á 14 daga fresti. Meirihluti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn er sammála um að aukin þjónusta hafi verið nauðsynleg.
Sala á fasteigninni Safnatröð 1
Seltjarnarnesbær gekk nýlega frá sölu á fasteigninni að Safnatröð 1 þar sem
hjúkrunarheimilið Seltjörn er til húsa. Sala fasteignarinnar hefur engin áhrif á rekstur
hjúkrunarheimilisins sem rekið er með myndarbrag af Vigdísarholti ehf. Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri kveður að um mikið framfaraskref sé að ræða en með þeim fjármunum sem fengust fyrir fasteignina gefst bænum kostur á frekari uppbyggingu innviða í bæjarfélaginu. Seltjarnarnesbær stendur m.a. í stórræðum við endurbætur á húsnæði Mýrarhúsa- og Valhúsaskóla sem og á þaki húsnæðis Tónlistarskóla bæjarins. Einnig er vert að minnast að fram undan er bygging nýs leikskólahúsnæðis. Þess má geta að sala fasteignarinnar er nýbreytni og er til marks um framsýni bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Framkvæmdir vegna myglu í Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla
Fyrir um ári síðan fengu bæjaryfirvöld Eflu verkfræðistofu til að framkvæma rannsókn á skólabyggingum Mýrarhúsa- og Valhúsaskóla með tilliti til rakaástands og innivistar vegna gruns um raka og myglu. Niðurstöður leiddu í ljós að aðgerða væri þörf í húsnæði beggja skóla. Tafarlaust var brugðist við og ráðist í viðeigandi úrbætur. Bæjarstjóri, starfsmenn Seltjarnarnesbæjar og skólastjórnendur hafa verið í stöðugu sambandi við verkfræðistofuna um rétt viðbrögð, aðgerðaáætlun og framkvæmdir. Þá hefur skólastjóri reglulega sent forráðamönnum grunnskólabarna greinargerð frá Eflu um stöðu framkvæmda. Allt kapp hefur verið lagt á að halda úti hefðbundnu skólastarfi en ávallt með velferð nemenda og starfsfólks í fyrirrúmi. Úrbætur eru langt á veg komnar og hófst skólastarf á tilsettum tíma nú í
haust. Bæjaryfirvöld þurftu að taka húsnæði á leigu bæði á Eiðistorgi sem og á Austurströnd til að halda úti kennslu í báðum skólunum. Nú réttu ári síðar er þetta mikla verkefni fyrir vind og hefur allt rakaskemmt efni verið fjarlægt úr báðum húsum. Kostnaður við þessar framkvæmdir nemur í dag u.þ.b. 670 milljónum króna. Allar stofur í báðum byggingum hafa verið teknar aftur í notkun utan heimilisfræðistofu í Mýrarhúsaskóla og smíðastofu í Valhúsaskóla. Á fundi skólanefndar í ágústlok var stjórnendum og starfsfólki skólanna, auk
sviðsstjóra fjölskyldusviðs, sérstaklega hrósað fyrir framlag þeirra við flóknar aðstæður í aðdraganda skólabyrjunar og í upphafi skólaárs.
Símanotkun til skoðunar í Valhúsaskóla
Skólanefnd hefur haft farsímanotkun í Valhúsaskóla til skoðunar undanfarin misseri með það fyrir augum að takmarka þá truflun sem slík notkun hefur á daglegt skólastarf. Ákveðið var að bíða eftir leiðbeiningum frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu um viðeigandi og örugga
farsímanotkun í grunnskólum landsins. Skipaður var starfshópur á vegum ráðuneytisins 2023 og átti hann að ljúka störfum 15. júní sl. Starfshópurinn hefur á hinn bóginn ekki enn skilað leiðbeiningum af sér en mun þó enn vera starfandi. Skólanefnd afréð því að taka af skarið og afla upplýsinga frá öðrum sveitarfélögum þar sem leiðbeiningar um farsímanotkun hafa verið teknar upp. Skólanefnd samþykkti nú í sumar að fela skólaráði Valhúsaskóla að móta og
leggja fram tillögur að reglum um farsímanotkun við skólann.
Baráttan við varginn
Umhverfisnefnd Seltjarnarnesbæjar hefur um árabil fylgst náið með útbreiðslu og þéttleika varpfugla á Seltjarnarnesi og hefur kríuvarpið verið í forgangi. Þess er skemmst að minnast er nær engir ungar komust á legg árið 2022 vegna afráns minks. Umhverfisnefnd brást skjótt við og í aðdraganda varptíma 2023 réðist nefndin, með dyggri aðstoð bæjarstarfsmanna, í aðgerðir til að stuðla að varpi auk þess sem gangskör var gerð að því að halda minknum í skefjum. Samkvæmt skýrslu Jóhanns Óla Hilmarssonar, fuglafræðings, um varpfugla á Seltjarnarnesi, skiluðu þessar aðgerðir góðum árangri og samhliða nægu framboði á síli var afkoma kríunnar góð árið 2023. Varpið bæði þéttist og fleiri ungar komust á legg. Nú í vor
héldu bæjaryfirvöld áfram þétt um taumana í baráttunni við minkinn. Einnig má nefna aðrar aðgerðir, svo sem gerð varpsvæðis -sandfláka- neðan við bílastæði golfvallarins. Svo virðist sem varpið hafi verið með ágætum þetta árið og er ljóst að fylgja verður aðgerðum fast eftir, bæði að því er varðar afræningja en ekki er síður þörf á öðrum aðgerðum til verndar og viðgangs fuglalífs.
Bygging nýs leikskóla
Bygging nýs leikskóla er forgangsmál á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi. Það var því mikil ánægja þegar Seltjarnarnesbær gekk frá samningi um fullnaðarhönnun á nýjum leikskóla við Andrúm arkitekta að undangengnu samráðsferli við starfsfólk leikskólans. Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri og Kristján Garðarsson arkitekt undirrituðu samninginn vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Bæjarfélagið stendur nú í mjög kostnaðarsamri endurbyggingu
Mýrahúsa- og Valhúsaskóla til að uppræta myglu og því er leikskólaverkefnið á eftir áætlun. Bærinn er tilbúinn í útboð og verður spennandi að fylgjast með framkvæmdum um leið og þær hefjast. Ekki er vitað hversu hár framkvæmdakostnaður vegna myglu í grunnskólabyggingunum verður þegar upp er staðið en allt kapp er lagt á að sjá til lands í þeim efnum. Það er algjör samstaða meðal bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að nýr leikskóli er forgangsmál og næsta stóra verkefni bæjarins.
Framkvæmdir á skólalóð Mýrarhúsaskóla
Bæjaryfirvöld réðu Hornsteina arkitekta til að endurhanna skólalóðina við Mýrarhúsaskóla. Fyrir liggja drög að hugmyndum um endurbætta skólalóð sem hægt er að vinna eftir í fjórum áföngum. Heildarkostnaður framkvæmda er u.þ.b. 200 m.kr. og er þess vegna mikilvægt að skipta verkefninu í áfanga. Hugmyndir Hornsteina arkitekta verða kynntar á næstunni en samkvæmt fjárfestingaáætlun ársins var gert ráð fyrir 30 m.kr. í skólalóð Mýrarhúsaskóla.
Fresta hefur þurft framkvæmdum við skólalóðina vegna nauðsynlegra endurbóta á skólanum síðastliðið ár. Þær hafa hins vegar gengið vel og er loksins hægt að huga að skipulagi lóðarinnar. Búið er að forgangsraða verkefnum á skólalóðinni og munu framkvæmdir á lóð hefjast af krafti á næsta ári. Á þessu ári verður skólalóðin engu að síður girt af í samræmi við óskir skólastjórnenda og foreldrafélagsins. Þá hefur verið útbúið betra reiðhjólaplan við skólann og fjögur ný fótboltamörk eru í smíðum. Til stendur að koma þeim fyrir þvert á sparkvöllinn en með því móti geta fleiri leikið en áður.
LED gatnalýsing
Samið hefur verið við rafverktaka um útskiptingu kvikasilfurslýsingar í bænum. Perur í núverandi götulýsingu eru ekki framleiddar lengur og því er mikilvægt að LED-væða
götulýsingu bæjarins. Ljósastýring bæjarins hefur verið tengd ljósastýringu í Vesturbæ Reykjavíkur og er orðin um 60 ára gömul. Góð lýsing er lífsgæði og öryggisatriði. Útskipting hefst á næstu vikum.
Viðsnúningur í rekstri Veitna
Jákvæð afkoma er af rekstri Hitaveitu Seltjarnarnesbæjar sem er afar jákvæð þróun en unnið hefur verið að endurskipulagningu og styrkingu Hitaveitunnar undanfarið ár. Nýr veitustjóri, Arnar Óli Einarsson, tók til starfa sl. vor.