Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi er lögð áhersla á að Seltjarnarnes verði áfram heilsueflandi samfélag. Mikilvægt er að huga að heilsu og vellíðan í allri stefnumótun og bæta almenna aðstöðu til hreyfingar og fjölbreytni í heilsueflingu víða um bæinn.
Að hvatningu Íþrótta- og tómstundanefndar Seltjarnarnesbæjar hafa bæjaryfirvöld fjárfest í
tækjabúnaði til að gera spor fyrir gönguskíði á Seltjarnarnesi. Græjuna þarf að draga aftan í fjórhjóli og mynda þannig spor sem auðveldar gönguskíðafólki gönguna á skíðunum.
Vissulega er oft ekki nægur samfelldur snjór til að hægt sé að leggja gönguskíðabraut á Seltjarnarnesi, en þeim mun mikilvægara er að vera með skýra áætlun um framkvæmd málsins þegar aðstæður leyfa. Skipulags- og umhverfissvið hefur tekið málið að sér og munu starfsmenn Þjónustumiðstöðvar bæjarins annast framkvæmd og útfærslu málsins þegar aðstæður leyfa.
Til að byrja með verða gerðar tilraunir með lagningu gönguskíðabrautir á tveimur stöðum.
Braut 1: Grótta
Brautin hefst við bílastæðið út við Gróttu og mun liggja eftir ströndinni við Kotagranda upp
með Bakkatjörn og svo nær byggðinni við Nesbala, Nesstofu og Ráðagerði og svo aftur að
bílastæðinu við Gróttu.
Braut 2: Suðurnes
Brautin hefst við bílastæðið hjá Nesklúbbnum og mun liggja í útjaðri brautar 5 og brautar 4, í kringum tjörnina og svo í útjaðri annarra brauta, út fyrir húsakynni Nesklúbbsins og aftur að bílastæðinu.
Nesklúbburinn tók vel í fyrirspurn um að nota að hluta til svæði golfvallarins undir
gönguskíðabraut, en útfærslan verður í góðu samráði við lykilfólk klúbbsins, mun taka mið að aðstæðum og hlífa öllum púttflötum sérstaklega.
Ef vel tekst til má hugsa sér að skoða fleiri staðsetninga síðar, svo sem á Valhúsahæð eða
meðfram Norðurströnd. Eftir rysjótta tíð í janúar og febrúar vonum við að veðurguðirnir verði þessu verkefni hliðhollir og færi okkur nægan snjó og minni vind þannig að úr þessu geti orðið.
Örn Viðar Skúlason, formaður Íþrótta- og tómstundanefndar Seltjarnarnesbæjar.