Í grein sinni „Horfum á staðreyndir“ í síðasta tölublaði Nesfrétta skrifaði Bjarni Torfi Álfþórsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra, glaðhlakkalega um skattahækkun sína. Hann hafði auðvitað séð fyrir stríð og í kjölfarið mikla verðbólgu og kostnaðarverðshækkanir á síðasta ári og taldi því ekkert óeðlilegt að hækka skatta á bæjarbúa. En hann gleymdi þó alveg að tala um staðreyndir í greininni. Hallarekstur bæjarsjóðs (A-hluta) var vissulega 403 milljónir á síðasta ári. Það er sá hluti sem rekinn er fyrir skatttekjur. En hallreksturinn skýrist einkum af tvennu. Í fyrsta lagi námu verðbætur á skuldir bæjarins um 279 milljónum króna. Í öðru lagi hækkaði lífeyrisskuldbinding bæjarins um 266 milljónir. Þetta skýrir rekstrarhalla uppá 545 milljónir! Hvorugt hefði verið hægt að laga með hærri sköttum eða miklum niðurskurði, nema ganga að þjónustu við bæjarbúa dauðri. Og það sem mestu skiptir, hvorugt hefur áhrif á sjóðsstreymi. Veltufé frá rekstri A-hluta, í gríðarlega erfiðu árferði sveitarfélaga, var eftir sem áður 256 milljónir og raunar 478 milljónir ef við skoðum samstæðu bæjarins í heild. Veltufé frá rekstri, það sem er til aflögu til að greiða af skuldum og fjárfesta, er ein allra mikilvægasta stærð í rekstri sveitarfélaga. Reykjavíkurborg, undir forystu Samfylkingarinnar, horfði hins vegar á -2,1 milljarð í veltufé til rekstrar á síðasta ári! Með öðrum orðum er borgarsjóður rúmlega tveimur milljörðum frá því að geta greitt nokkurn skapaðan hlut upp í skuldir sínar. Háir skattar þýða ekki betri rekstur, nema síður sé. Það hefur vinstri meirihlutinn í Reykjavík staðfest endanlega.
Óvinnandi taprekstur og skuldavandi?
Afar mikilvægt er að átta sig á því að fjárhagsvandi Seltjarnarnesbæjar er ekki stórvægilegur. Það hefur gefið hressilega á bátinn eftir heimsfaraldur og stríð, launahækkanir síðustu ára og ekki síst mikla verðbólgu í framhaldinu. Á síðustu fimm árum hefur lífeyrisskuldbinding A-hluta aukinheldur hækkað um rúmlega 900 milljónir, úr 1,3 milljörðum í 2,2 milljarða króna. Hækkunin er gjaldfærð í rekstrarreikningi. Það þýðir einfaldlega að 900 milljónir af hallarekstri síðustu ára hefur nákvæmlega ekkert með daglegan rekstur bæjarins, sjóðstöðu eða þjónustu hans að gera. Þannig hefur bærinn ekki þurft að staðgreiða þessar 900 milljónir með tilheyrandi niðurskurði á þjónustu. Lífeyrisskuldbindingin hækkar inní framtíðina og greiðslur dreifast yfir næstu áratugi. Á síðasta ári greiddi bærinn um 87 milljónir af lífeyrisskuldbindingunni.
Skuldaviðmið bæjarins er 80%. Það má hæst vera 150%. Skuldaviðmið er sérlega mikilvægt þar sem þá er búið að taka tillit til krafna varðandi hjúkrunarheimilið Seltjörn, en ríkið skuldar bænum um 1,2 milljarða (verðtryggt) skv. ársreikningi sem draga má frá langtímaskuldum A-hluta bæjarins. Þær námu um áramótin 3,1 milljarði. Langtímaskuldir A-hluta eru því í raun 1,9 milljarður, en ekki 3,1 milljarður. Enn fremur þarf að taka tillit til skuldar Reykjavíkurborgar vegna byggingar fimleikahúss en skuldin nemur núna um 600 milljónum og er líka verðtryggð. Er því hinn meinti mikli skuldavandi í raun kominn niður í rétt liðlega 1,3 milljarða króna. Eftir stendur þó lífeyrisskuldbindingin, uppá 2,2 milljarða eins og áður sagði. Hún er vissulega byrði en ekki mjög þung. Þessar staðreyndir, þ.e. kröfur bæjarins á ríki og borg, endurspegla ekki suma skuldamælikvarða sem stuðst er við í samanburði sveitarfélaga, en þær eru staðreyndir eftir sem áður og endurskoðaður ársreikningur bæjarins staðfestir það. Bjarni Torfi þarf sjálfur að horfa á þær staðreyndir.
Rútínubréfin víða
Um helmingur sveitarfélaga fékk áminningu frá Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga fyrir skemmstu. Reyndar er minna talað um að enn eru sveitarfélögin á undanþágu vegna vandræðagangs eftir heimsfaraldurinn þar sem allur rekstur fór á kaf og kallaði borgarstjórinn í Reykjavík bréfið „rútínubréf“. Árið 2026 þarf þetta þó að vera komið í lag og því er áminningin í raun kærkomin og brýnir sveitarfélögin til aðgerða. Við höfum gagnrýnt að gríðarleg hækkun lífeyrisskuldbindingar sé reiknuð inní viðmið Eftirlitsnefndarinnar og fróðlegt verður að sjá hvort viðmiðum verði breytt. Við blasir þó að taka þarf á þeim gríðarlega halla sem ríki og sveitarfélög leyfðu sér að fara í til að halda öllu gangandi í ströngum sóttvarnaraðgerðum stjórnvalda. Sjálfstæðismenn munu grípa til aðgerða til að bæta fjármálastjórn og hagræða. Áætlanagerð, eftirfylgni og upplýsingagjöf verður stórbætt. Samningar við birgja endurskoðaðir. Sala lóða, m.a. á „bensínstöðvarreit“, eru í skoðun og enn fremur hafa Sjálfstæðismenn lýst vilja sínum við fjármálaráðherra að selja hjúkrunarheimilið Seltjörn. Það yrði gert til að létta af þeim skuldum sem á húsinu hvíla og rugla skuldahlutföll. Hjúkrunarheimilið er rekið af ríkinu og fjármagnað af ríkinu með leigugreiðslum. Skuldin er í bókum bæjarins og hækkar og viðhald eykst. Það skýtur skökku við, í rekstri sem eru óviðkomandi bænum. Við Sjálfstæðismenn ætlum að taka á vandanum, ólíkt nágrönnum okkar í Reykjavík, sem hafa hækkað skatta í botn. Þar eru nú góð ráð dýr og lánin líka. Það er það átakanlega.
Magnús Örn Guðmundsson
Formaður bæjarráðs Seltjarnarnesbæjar