Um síðustu áramót hækkaði minnihlutinn í bæjarstjórn með fulltingi svokallaðs óháðs bæjarfulltrúa útsvar á Seltjarnarnesi úr 13,7% í 14,09%. Að mati þeirra er reksturinn bæði slæmur og ósjálfbær. Breytir þar engu um að nær allur hallarekstur síðustu ára megi rekja til hækkunar á lífeyrisskuldbindingu sem nemur tæplega milljarði á kjörtímabilinu og mikilla efnahagslegra þrenginga í heimsfaraldrinum þar sem atvinnuleysi fór yfir 10%. Ríkisstjórninni kom ekki til hugar að hækka skatta á landsmenn þrátt fyrir mikinn halla ríkissjóðs enda tekur nú kröftug viðspyrna við. Bjartari tímar blasa við og skattahækkun svo skömmu fyrir kosningar er með miklum ólíkindum. Á síðasta ári, fyrir skattahækkunina, greiddu Seltirningar fjórða hæsta útsvar á mann á landinu eða tæplega 770.000 kr. Er sú tala nokkuð hærri en íbúar nágrannasveitarfélaganna greiddu eins og sést á neðangreindum tölum úr Árbók sveitarfélaga 2021.
Heimild: Árbók sveitarfélaga 2021
Útsvar og fasteignaskattar verða lækkaðir
Við Sjálfstæðismenn ætlum að lækka útsvarið aftur í 13,7% og leiðrétta þetta óheillaskref sem stigið var undir lok síðasta árs. Auk þess ætlum við að lækka fasteignaskatt þannig að hann hækki ekki umfram verðlag. Skv. vísitölu íbúðaverðs hefur verð á fjölbýli hækkað um 22% sl. 12 mánuði og sérbýli um yfir fjórðung. Þetta mun endurspeglast í nýju fasteignamati sem birt verður í júní og brýnt er að lækka álagningu fasteignaskatts til að mæta þessum hækkunum. Á sama tíma fjölgar íbúum á næstu misserum, hagvöxtur er að taka við sér af miklum krafti og atvinnuleysi er nú komið undir 4%. Tekjur bæjarins eru að styrkjast verulega, án tillits til skattahækkana.
Lágar skuldir og sterkt veltufé frá rekstri
Um helmingur af langtímaskuldum bæjarins eru vegna byggingar hjúkrunarheimilis og stækkunar fimleikahúss. Ríki og borg greiða stærstan hluta þessara skulda og því segja heildarskuldir lítið til um sterkan efnahag bæjarins. Skuldaviðmið var um 80% um síðustu áramót, en það má að hámarki vera 150%. Veltufé frá rekstri samstæðu bæjarins hefur verið sterkt þrátt fyrir erfiðleika síðustu ára en það nam yfir 350 milljónum á síðasta ári og 400-500 milljónum árlega næstu 3 árin (án hækkunar útsvarsins). Veltufé segir til um hversu miklu fjárflæði reksturinn skilar, eftir alla grunnþjónustu, til að borga af skuldum og ráðast í fjárfestingar. Engu að síður telur minnihlutinn ekki vera til rekstrarfé til að standa undir þjónustu við bæjarbúa! Því fer fjarri og veltufé mun styrkjast enn frekar á komandi misserum. Gjaldfærð hækkun lífeyrisskuldbindingar hefur engin áhrif á fjárstreymið og þar með grunnþjónustuna sem verður áfram með besta móti. Ábyrgir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu standa vörð um góða þjónustu á sama tíma og rekstur bæjarins mun vera traustur án þess að hækka þurfi skatta um leið og gefur á bátinn. Það er bjart framundan á næsta kjörtímabili með nýjum krafti á traustum grunni.
Magnús Örn Guðmundsson, formaður bæjarráðs skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins