Spennandi tímar fram undan
Gleðilegt ár kæru Sjálfstæðismenn. Þá er nýtt ár runnið upp með nýjum tækifærum. Nú eru tvö ár frá því Covid-19 fór á skrið og þó útlitið sé ekki alveg nógu gott þá vonum við að árið 2022 verði gott ár með eðlilegri samskiptum við vini og vandamenn.
Í bæjarmálunum verða töluverðar breytingar á árinu. Eins og fram hefur komið fær Seltjarnarnes nýjan bæjarstjóra og nokkra nýja bæjarfulltrúa, þar sem bæjarstjórinn og hluti núverandi bæjarfulltrúa ætla ekki að bjóða sig fram til endurkjörs í næstu bæjarstjórnarkosningum, sem verða 14. maí n.k.
Prófkjör verður 26. febrúar
Hjá okkur kjósendum Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi blasir því við að velja á lýðræðislegan hátt frambærilega fulltrúa á lista flokksins fyrir næstu kosningar. Nú liggur fyrir að prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi verður 26. febrúar og að framboðsfrestur til prófkjörs rennur út 17. janúar.
Þó aðaláherslur Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi um ráðdeild í rekstri, trausta fjármálastjórn, lágar álögur á íbúana, öruggt umhverfi, góða skóla og heilsueflandi þjónustu við íbúana liggi fyrir, er ljóst að við okkur blasir að yfirfara stefnuna og útfæra hana nánar fyrir einstaka málaflokka.
Þá er það svo að þó vel hafi tekist til á mörgum sviðum við erfiðar aðstæður á yfirstandandi kjörtímabili, hefur hluti kjósenda flokksins væntingar til þess að við gerum enn betur á því næsta, bæði í rekstri bæjarins, þjónustu við bæjarbúa og við að skapa hér snyrtilegt umhverfi. Þetta eru þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.
Vilt þú taka þátt í framþróun Seltjarnarnesbæjar
Það sem gerir Seltjarnarnes að svo góðu samfélagi er meðal annars það að stærðin er ekki svo mikil, nálægðin er umtalsverð og möguleikar okkar íbúanna til að hafa jákvæð áhrif á framþróun bæjarfélagsins eru miklir.
Þátttaka í starfi Sjálfstæðisfélags Seltirninga hvort heldur er við hugmyndavinnu eða í framboði er frábær leið til að hafa áhrif. Ert þú tilbúin/n að deila þínum hugmyndum um betra samfélag með okkur og reiðubúin/n að leggja af mörkum einhverja vinnu fyrir félagið? Hafðu þá samband við okkur og við ræðum málin.
Gleðilegt nýtt ár og megi nýtt ár færa þér og þínum hamingju og góða heilsu.
Örn Viðar Skúlason
formaður Sjálfstæðisfélags Seltirninga