Þegar rýnt er í útgjaldaþróun Seltjarnarnesbæjar á milli áranna 2019 og 2020, koma ánægjulegar niðurstöður í ljós. Gott aðhald og markvissar aðgerðir undanfarinna ára eru að skila sér í góðum grunnrekstri bæjarins.
Möguleikar sveitarfélags til að bregðast við breytingum á ytra umhverfi með sama hraða og fyrirtæki, hvort heldur með hagræðingu eða tekjuöflun eru mjög takmarkaðir. Stór hluti útgjaldanna byggist á lögum, reglugerðum, kjarasamningum og ýmsum öðrum opinberum skyldum sveitarfélaga svo sem að reka skóla eða annast félagsþjónustu. Það sama á við um stærstan hluta teknanna sem hækka í takt við almenna launaþróun. Ákvarðanir um breytingar á rekstri þarf að skoða vel og tryggja að sveitarfélagið uppfylli allar sínar skyldur þrátt fyrir breytingar á einstökum rekstrarþáttum sveitarfélagsins. Þetta eru ákvarðanir sem skila sér oft í hagkvæmari rekstri einu til tveimur árum síðar. Þannig má líkja rekstri sveitarfélags við það að stýra stóru olíuflutningaskipi, þar sem viðbragðstíminn er mjög langur.
Grunnrekstur bæjarins er góður
Þegar horft er á grunnrekstur bæjarsjóðs (A hluta) þar sem laun vega tæp 59% af útgjöldum bæjarins og annar rekstrarkostnaður vegur rúm 36%, er ánægjulegt að sjá að launakostnaður hækkar einungis um 4,1% á sama tíma og launavísitala hækkaði um 7,2%. Þá hækkar annar rekstrarkostnaður aðeins um 1,7% á meðan verðbólga án húsnæðis var um 4% á árinu 2020. Þetta eru skýr merki um bata í rekstri.
Þegar litið er til útgjaldaþróunar í einstökum málaflokkum er ljóst að góður árangur hefur náðst. Þegar búast mátti við 4-6% hækkun kostnaðar við óbreyttan rekstur hefur tekist að auka hagkvæmni í rekstri og gæta aðhalds. Þannig lækka útgjöld til fræðslumála um 0,7% á milli ára, en þau vega tæp 49% af útgjöldum bæjarins. Útgjöld til félagsþjónustu hækka einungis um 3,6% og útgjöld til æskulýðs og íþróttamála hækka einungis um 0,8% á milli ára. Þessir málaflokkar vega samtals rúm 27% af útgjöldum bæjarins. Með sama hætti lækkar kostnaður við rekstur bæjarskrifstofu um 1,2% og kostnaður við rekstur áhaldahúss lækkar um 13% á milli ára. Hér hefði með sama hætti mátt búast við 4-6% hækkun miðað við óbreyttan rekstur. Já þetta er vel gert og þrátt fyrir að inni í þessum tölum fyrir 2020 séu sérstök útgjöld svo sem aukin þrif og meiri mönnun vegna Covid.
Samningur Seltjarnanesbæjar við Skólamat um rekstur mötuneyta fyrir leik- og grunnskóla sveitarfélagsins er gott dæmi um breytingar sem hrundið var af stað og skila sér í betri grunnrekstri bæjarins og lækkun útgjalda til fræðslumála. Hér var leitað leiða til að hagræða í umgjörð eða stoðþjónustu á meðan mikill metnaður er lagður í aðbúnað og umgjörð kennslunnar.
Hækkun útsvars er engin töfralausn
Í umfjöllun um rekstur bæjarins hefur fulltrúum minnihlutans orðið tíðrætt um nauðsyn þess að bærinn fullnýti heimildir sínar til til útsvarstekna og auki álögur á bæjarbúa til að bæta rekstrarafkomu bæjarsjóðs. Þetta kann að hljóma í eyrum sumra sem fín lausn og þar með sé rekstur bæjarins á grænni grein. En það er ekki svo einfalt, rekstur sveitarfélags snýst um að hafa taumhald á útgjöldum og afmarka rekstur innan þess tekjuramma sem sveitarfélagið býr við.
Það að hækka útsvarið á Seltjarnarnesi í 14,52% og sækja 180 m.kr. aukalega í vasa íbúanna, þýðir um 4% hækkun tekna. Það er i raun lítið hlutfall heildarteknanna og upphæð sem gæti verið fljót að gufa upp ef ekki er skýr áhersla á aðhald í útgjöldum bæjarins.
Skýr stefna og metnaður til að gera enn betur
Það hefur verið skýr stefna Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi að sýna ábyrgð og gæta aðhalds í rekstri bæjarins á sama tíma og álögum á íbúa er stillt í hóf. Þegar horft er yfir rekstur bæjarins nokkur undanfarin ár er ljóst að rekstrarniðurstaðan hefur sum árin verið undir væntingum okkar Sjálfstæðismanna. Á því eru ýmsar eðlilegar skýringar sem einhvern tíma tók að bregðast við.
Nú eru það hins vegar skýr merki um bata á grunnrekstri bæjarins sem ber að fagna ásamt ágætum varnarsigri á Covid tímum og lágu skuldahlutfalli. Það er því ljóst að „olíuskipið“ er á réttum kúrs og því góðar líkur á að rekstur bæjarins verði á góðu róli á komandi árum. Það er í takt við metnað okkar Sjálfstæðismanna að gera enn betur.
Örn Viðar Skúlason,
formaður Sjálfstæðisfélags Seltirninga