Í júníbyrjun var haldinn sameiginlegur fundur allra formanna öldungaráða í Kraganum. Mættir voru formenn frá Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi. Tilgangur fundarins var að sameina kraftana um málefni eldri borgara og sammælast um tiltekin málefni sem hægt væri að vinna að í sameiningu svo rödd eldri borgara yrði sterkari. Meðal annars kom fram hugmynd að stofna gagnabanka til að miðla upplýsingum og ýmsu nýnæmi í málaflokki eldra fólks. Gott væri að geta leitað í smiðjur hvert hjá öðru. Á fundinum kom fram að misjafnt er á milli sveitarfélaga hversu oft öldungaráð funda á ári. Fjórir fundir eru á ári á Seltjarnarnesi í Garðabæ og Kópavogi en Mosfellsbær og Hafnarfjörður eru með 6-9 fundi á ári.
Gott að eldast
Á vordögum var samþykkt þingsályktunartillaga um aðgerðaáætlun stjórnvalda 2023-2027– Gott að eldast https://www.stjornarradid. is/library/02-Rit–skyrslur-og-skrar/GottAdEldast.pdf
Markmiðið er að trygga eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt sé að þjónustan sé veitt þegar hennar er þörf, á forsendum fólksins sjálfs og á réttu þjónustustigi. Aðgerðaráætlunin byggir á fimm stoðum sem eru:
Samþætting – Virkni – Upplýsing – Þróun – Heimili. Meginþungi aðgerða í áætluninni liggur í þróunarverkefnum sem snúast um að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta saman þá þjónustu sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin. Áhersla er á að nýsköpun og prófanir muni nýtast til ákvarðanatöku um framtíðarskipulag þjónustu við eldra fólk. Ráðist verður í aðgerðir sem snúa að heilbrigðri öldrun með alhliða heilsueflingu, sveigjanlegri þjónustu og stórbættum aðgerðum að ráðgjöf og upplýsingum um þjónustu fyrir eldra fólk.
Öll sveitarfélögin sýndu áhuga að sækja um þátttöku í þróunarverkefninu sem fylgja aðgerðaráætluninni „Það er gott að eldast“. Fjölskyldunefnd Seltjarnarnesbæjar hefur samþykkt að Seltjarnarnesbær sæki um að vera þátttakandi í þróunarverkefninu tengdu verkefninu.
Stefnumótun í málefnum eldri borgara
Varðandi stefnumótun í málefnum eldra fólks kom fram á fundinum að það vantar meiri aðkomu ríkis varðandi fjármagn þegar kemur að því að fólk eigi að búa heima sem lengst. Þörf er á styrkari stoðum svo að eldra fólk geti búið lengur heima. Það er gat í kerfinu gagnvart því að eldra fólk geti búið heima sem lengst. Eldra fólk er ekki einn hópur heldur margir hópar með mikilli aldurs- dreifingu og mismunandi þarfir. Mikilvægt er að horfa til lýðheilsu og forvarna í stefnum um málefnum eldra fólks. Athyglisvert er að á fundinum kom fram að frístundastyrkur er misjafn milli sveitarfélaga og misjafnt hvort hann sé tekjutengdur, en allir voru sammála um að þörf er á aðkomu ríkis þegar kemur að styrkja heilsueflingu eldra fólks. Einnig er mikil þörf á frekari ráðgjöf og upplýsingum til eldra fólks varðandi réttindi í kerfinu, til dæmis um ívilnanir hjá skattinum. Vel hefur gefist að halda reglulega kynningar- og fræðslufundi og brjóta upp fundina með uppsetningu bása og samtala. Félag eldri borgara á Seltjarnarnesi hyggur til að mynda á ýmsa fræðs- lufundi með haustinu í samvinnu við bókasafn bæjarins. Ánægjulegt er hvað félagið hefur eflst undan- farið og látið til sín taka í málefnum eldri bæjarbúa.
Eldri borgurum fjölgar á Nesinu
Við lifum lengur en áður og sífellt fjölgar í hópi eldri borgara á öllu landinu. Á Seltjarnarnesi voru í janúar 2023 íbúar 60 ára og eldri rúmlega 25% af heildaríbúafjölda bæjarins. Fjöldi þeirra sem er núna á aldrinum 60 til og með 66 ára er um 414 manns. Við næstu sveitarstjórnarkosningar verður hluti þessa hóps orðnir löglegir eldri borgarar auk þeirra sem fyrir eru. Hópurinn er mjög aldursdreifður og með ólíkar þarfir og mikilvægt að Seltjarnarnesbær fari alvarlega að hugleiða vinnu við stefnumótun í málefnum þessa fjölmenna hóps. Þetta eru öflugir kjósendur sem tími er kominn til að hlusta betur á.
Hildigunnur Gunnarsdóttir, formaður fjölskyldunefndar og öldungaráðs
og varabæjarfulltrúi.