Vel heppnaðir hverfafundir á Seltjarnarnesi

Hverfafundir Sjálfstæðisfélags Seltirninga voru vel sóttir og skapaðist góð umræða um hin ýmsu málefni bæjarins að loknum framsöguerindum. Fundirnir voru fjórir og voru haldnir á fjórum mismunandi stöðum með það fyrir augum að fólk gæti gengið á fundarstað. Markmið fundanna var að gefa íbúum tækifæri til að ræða um sitt nánasta umhverfi við bæjarstjóra, bæjarfulltrúa og formenn nefnda. Á fundunum var farið yfir helstu áskoranir og verkefni bæjarins sem og helstu verkefni nefnda.

Á fundunum var rætt um fjölmörg mál, bæði stór og smá. Þó nokkuð var um beinar ábendingar um það sem betur mætti fara í nærumhverfi bæjarbúa. Rætt var almennt um ásýnd og umhirðu bæjarins og bent á bágt ástand gangstétta, gatna og götulýsingar. Góð umræða var um umferðaröryggi, áform um borgarlínu, umferðarmál almennt og skort á samráði Reykjavíkurborgar um breytingar á stofnleiðum Seltirninga. Þá var rætt um flóðavarnir, skólamál, byggingu leikskóla og málefni gististaða.

Bæjarstjóri hefur þegar tekið saman lista yfir helstu ábendingar íbúa sem fram komu á þessum fundum og mun hann reyna að koma mörgum þeirra í umbótaferli við fyrsta tækifæri.

Mikil ánægja var með fundina og þær persónulegu umræður sem þar mynduðust. Því er ljóst að Sjálfstæðisfélag Seltirninga mun þróa þetta form funda enn frekar og gera að árlegum viðburði.

Örn Viðar Skúlason, formaður Sjálfstæðisfélags Seltirninga