Aðalfundur Sjálfstæðisfélags Seltirninga var haldinn fimmtudaginn 28. janúar. Á fundinum var stjórn félagsins endurkjörin, en þar sitja Örn Viðar Skúlason formaður, Þröstur Þór Guðmundsson, Dagbjört S. Oddsdóttir, Grétar Dór Sigurðsson og Jónas Friðgeirsson.
Í ræðu formannsins á fundinum sagði Örn Viðar meðal annars:
Það þarf ekki að fjölyrða hér um niðurstöður síðustu kosninga sem lituðust af klofningi og sundrung, en svo fór þó að meirihluti Sjálfstæðismanna hélt velli. Þó Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki fengið góða kosningu, má með smá einföldun segja að hægri menn á Seltjarnarnesi hafi samt skilað 1.600 – 1.800 atkvæðum í kjörkassana eða 65% til 70% þeirra atkvæða sem greidd voru. Þetta er sá hópur sem við þurfum að höfða til og út á það snýst vinna okkar á næstunni. Ég hef sagt það að við eigum að stefna á það í næstu kosningum að tryggja flokknum fimm fulltrúa í bæjarstjórn Seltjarnarness.
Traust fjármálastjórn, ábyrg meðferð á opinberu fé og lágar álögur hafa verið aðalsmerki Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi alla tíð og verða það áfram. Það eru í stórum hópi auðvitað skiptar skoðanir um það hvort nógu vel hafi til tekist að undanförnu, en stefnan er skýr.
Ítarlegt samtal og samráð við sem flesta í okkar röðum er mikilvægt skref í þeirri vegferð að tryggja góðan árangur í næstu kosningum og marka okkur áfram trausta og trúverðuga stefnu í lykilmálefnum bæjarins. Við þurfum að skerpa á markmiðum okkar í fjármálum bæjarins, skilgreina kröfur til almenns aðhalds í útgjöldum, rekstrarafgangs og skuldsetningu.
Þá liggur fyrir eins og Ásgerður greindi frá opinberlega í Nesfréttum að við okkur blasir að velja nýjan leiðtoga fyrir næstu kosningar og stilla upp frambærilegum lista. Ég tel það góða ákvörðun hjá Ásgerði að tilkynna þetta með góðum fyrirvara, en eins og hún segir sjálf þá vill hún gefa okkur gott ráðrúm til að velja nýjan leiðtoga flokksins fyrir næstu kosningar.
Það eru spennandi tímar fram undan hjá Sjálfstæðisflokknum á Seltjarnarnesi og við viljum hvetja alla þá sem áhuga hafa á að starfa með okkur og vinna að því að tryggja góða niðurstöðu í næstu kosningum og öruggt og gott samfélag fyrir okkur öll að gefa sig fram og leggja okkur lið.
Á aðalfundi Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Seltjarnarnesi sem haldinn var í kjölfarið var kosinn nýr formaður og tveir nýir meðstjórnendur. Nýr formaður fulltrúaráðs er Pétur Blöndal og nýir meðstjórnendur eru þau Árni Helgason og Hulda Pjetursdóttir. Við bjóðum þau velkomin í hópinn.
Formaður Sjálfstæðisfélagsins þakkaði að lokum fráfarandi formanni Guðmundi Jóni Helgasyni (Jónda) sem ekki gaf kost á sér til endurkjörs fyrir gott starf fyrir fulltrúaráðið um árabil.