FRAMÚRSKARANDI BÆR

Seltjarnarnes er einstakt bæjarfélag sem hefur allar forsendur til að vera framúrskarandi. Til að svo megi verða þarf að standa vörð um stöðu Seltjarnarness sem sjálfstæðs bæjarfélags. Það er mikilvægt að íbúar geti fengið innan bæjarmarkanna þá þjónustu sem heimilin þarfnast að jafnaði daglega. Í mínum huga eru nokkur grundvallaratriði sem þarf gæta vel að.

Stjórnendur bæjarins eiga að vera vökulir yfir hag bæjarbúa. Það á að vera gott samband milli stjórnenda bæjarins og bæjarbúa. Bæjarbúar skulu eiga þess kost að fylgjast vel með því sem er á döfinni hverju sinni og gefast tækifæri til að tjá tímanlega afstöðu sína til verkefna sem þá varða. Kapp skal lagt á að stjórn bæjarins sé í góðri sátt við íbúana.

Fjárhagur bæjarins þarf að vera traustur eins og lengstum hefur verið. Ekki skal ráðast í verkefni nema fjárráð leyfi, undirbúa þau vel og framkvæma þannig að fjármunir nýtist sem best. Kappkosta skal að áætlanir standist hvað varðar kostnað, tímamörk og vönduð vinnubrögð.

Sköttum og gjöldum á að stilla í hóf þannig að fólk fái að njóta þess sjálft að ráðstafa sem mestu af aflafé sínu. Útsvar verði áfram í lágmarki og skoðað verði hvort unnt sé að lækka prósentu fasteignagjalda þegar fasteignamat hækkar.

Götur, gangstígar, hjólastígar, leiksvæði og mannvirki bæjarins yfirleitt, eiga ætíð að vera í góðu ástandi, viðhald stöðugt og því vel sinnt. Svæðið yst á Nesinu og fjaran við Seltjörn og landið upp af henni verði kyrrlátt útivistarsvæði fyrir fjölskyldur, fólk á öllum aldri.

Skipulagsmál, sem of oft hafa valdið ágreiningi, verður að leysa í góðu samráði og sátt við bæjarbúa. Stuðlað verði af fremsta megni að því að byggðin við Bygggarða rísi sem fyrst, svo að völ verði á hentugu húsnæði fyrir Seltirninga og hægt verði að taka við nýjum íbúum. Jafnframt verður að forgangsraða þannig að innviðir bæjarins standi undir slíkri framkvæmd og íbúafjölgun.

Tryggja verður greiða för Seltirninga í gegnum höfuðborgarsvæðið með því að fylgjast grannt með því að aukin byggð og fjölgun fólks í vesturbæ Reykjavíkur, þéttingarstefna og andstaða við fjölskyldubílinn hjá ráðafólki höfuðborgarinnar, teppi ekki eða loki mikilvægum samgönguæðum. Framkvæmdir við Borgarlínu, færsla umferðar í stokk og aðrar gatnaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu mega aldrei stofna öryggi samgangna til og frá Seltjarnarnesi í hættu.

Grunnskóli, leikskóli og tónlistarskóli Seltjarnarness hafa lengi verið í fremstu röð, en lengi má gott bæta. Bregðast verður við ábendingum sem fram koma í úttekt Menntamálastofnunar frá 2021 um það sem betur má fara í starfi grunnskólans. Leysa verður húsnæðisvanda leikskólans og bregðast við aukinni eftirspurn eftir dvalarrýmum fyrir börn allt frá 12 mánaða aldri.

Íþróttastarfið njóti áfram öflugs stuðnings enda fátt vænlegra til að stuðla að heilbrigðum þroska uppvaxandi kynslóðar og góðri heilsu íbúa á öllum aldri. Þá verði tómstundastarf ungmenna í Selinu eflt.

Eiðistorg þarf að efla og leitast við að fjölga þar þjónustufyrirtækjum, fegra umhverfið og efna þar oftar til viðburða bæjarbúum til gleði. Kanna þarf möguleika þess að fá meiri tekjur af þeirri vaxandi atvinnugrein sem ferðaþjónustan er orðin. Seltjarnarnes laðar til sín marga erlenda ferðamenn sem m.a. vilja njóta þar útsýnis, útivistar og gistingar.

Hlynna verður betur að eldra fólki í bænum, m.a. í ljósi minnkandi tekna þegar ævistarfi lýkur. Mæta þarf þörfum þessa hóps af skilningi ekki síður en hinna yngri, sem svo lengi hefur verið sinnt með sóma. Félagsstarf eldriborgara þarf að styrkja enn frekar.

Félagsheimili Seltjarnarness hefur alla burði til þess að verða enn mikilvægari samkomu- og viðburðastaður bæjarbúa, auk þess fjölbreytta félagsstarfs sem fram fer í Seltjarnarneskirkju og víðar í bænum. Flýta þarf framkvæmdum við endurbætur á félagsheimilinu.

Loks ber að fagna að langþráður draumur um hjúkrunarheimili í bænum hefur ræst með tilkomu hins vel heppnaða heimilis „Seltjarnar“. Einnig að náttúruminjasafn tekur senn til starfa við Nesstofu. Það er einnig fagnaðarefni að hið sögufræga hús „Ráðagerði“ verður brátt að kaffihúsi, en þess hefur lengi verið beðið af þeim sem leggja leið sína á hinar vinsælu slóðir við Gróttu.

Að lokum vil ég hvetja íbúa til að láta málefni Seltjarnarness sig varða. Ein leið til þess er að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 26. febrúar n.k. – Ég óska eftir ykkar stuðningi.

Svana Helen Björnsdóttir,

verkfræðingur og frambjóðandi í 1. sæti XD á Seltjarnarnesi