Í hvað fóru peningarnir okkar?

Á dögunum birti Seltjarnarnesbær yfirlit yfir rekstur bæjarins á fyrstu sex mánuðum ársins. Yfirlitið er á heimasíðu bæjarins. Halli er á rekstri bæjarins en hann nemur 82 milljónum króna á tímabilinu. Um er að ræða nokkurn bata frá í fyrra þegar hallinn nam yfir 180 milljónum á fyrri helmingi ársins en viðsnúningur var á seinni helmingi og endaði árið í fyrra rétt yfir núlli. Ráðist hefur verið í margvíslegar aðgerðir til að rétta reksturinn við. En í hvað fóru pengingarnir eins og margir íbúar spyrja sig, ekki síst þegar minnihluti Samfylkingar og Viðreisnar/Neslista segir að útgjöld séu ekki nægilega há!

Í grunnskólann, leikskólann og tónlistarskólann
Skatttekjur bæjarins voru 1.771 milljón á fyrri helmingi ársins. Af þeim fóru hvorki meira né minna en 1.085 milljónir til fræðslumála, eða 61% af skatttekjum. Fá sveitarfélög ráðstafa jafnmiklu af tekjum í skólamál enda eru skólarnir okkar í fremstu röð. Um það er ekki deilt og af því erum við stolt af. Ýmis konar stuðningur við börn í erfiðleikum í leik- og grunnskóla og frí tónlistarkennsla eru dæmi um góða þjónustu í skólunum. Allt tal minnihlutans um niðurskurð til skólamála er vitleysa.

Félagsþjónusta komin fram úr æskulýðs- og íþróttamálum
Lengi vel voru íþrótta- og tómstundamál næststærsti útgjaldaliðurinn en á síðustu misserum hefur félagsþjónustan hægt en örugglega skotist fram úr og vegur þjónusta við fatlaða þar mjög þungt. Þar er vitlaust gefið hjá ríkinu. Útgjöld til félagsþjónustunnar voru 332 milljónir á fyrri helmingi ársins, eða 19% af tekjum en útgjöld til æskulýðs- og íþróttamála námu 14,5%. Glöggir lesendur hafa nú áttað sig á að 95% af skatttekjum bæjarsins fóru til þessara þriggja stóru en mikilvægu málaflokka á fyrri helmingi ársins.

Og hvað með allt hitt sem við viljum gera?
Menningarmál, almannavarnir, skipulags- og byggingamál, umferðarmál, rekstur eignasjóðs og rekstur áhaldahúss bætast svo við reikninginn að ógleymdum byggðasamlögunum sem eru býsna drjúg þessa dagana. Og enn bætist við með Borgarlínu, sem ég styð reyndar ekki sjálfur og allra síst í ljósi stöðunnar. Því brölti er sjálfhætt enda rekstur allra sveitarfélaga í járnum. Það er óhætt að segja að hverri krónu sé varið í þjónustu við bæjarbúa á Nesinum, og gott betur þar sem halli er á rekstri bæjarins. Það er nauðsynlegt að nýta fjármunina betur og hagræða til að geta borgað grunnþjónustuna og allt hitt sem vilji stendur til að gera.

„Gerum bara eins og Reykjavík!“
Halli á bæjarsjóði og hátt þjónustustig gengur ekki upp til lengri eða skemmri tíma. Þar af leiðandi þarf samhent átak bæjabúa til að vinna sig útúr vandamálinu og því miður kemur það niður á öllum. Sumu er óþægilegt að vinda ofan af. Minnihluti Samfylkingar og Viðreisnar vill að sjálfsögðu hærri skatta eins og félagar þeirra í Reykjavík. Fæstir Seltirningar vilja líklega að rekstur bæjarins verði eins og borgarinnar, hvorki útgjöld né þjónusta. Einnig borgum við nú þegar þriðja hæsta útsvar á landinu, eða 723 þús kr. á hvern íbúa á ári! Til samanburðar greiða Garðbæingar hver um sig 709þús á ári og Reykvíkingar 671 þús (Árbók sveitarfélaga 2019). Á móti eru reyndar fasteignaskattar misnotaðir miskunnarlaust á fyrirtæki í borginni sem sligast undan byrðinni. Útsvarið á að duga fyrir rekstri og góðum afgangi eins og það er hugsað. Fasteignaskatta þarf að lækka áfram við fyrsta tækifæri enda eiga þeir eingöngu að duga fyrir rekstri fasteignatengdra liða, eins og sorphirðu ofl. Útsvarshækkun er ekki lausn en mögulega þarf að grípa til hennar einhvern tíma í framtíðinni til að borga línuna til Reykjavíkur og nágrennis. Vonandi ekki og alls ekki á þessari vakt.

Magnús Örn Guðmundsson
Formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar