Langlægstu skuldir á íbúa í samanburði

Undir stjórn sjálfstæðismanna hefur Seltjarnarnes boðið íbúum sínum upp á lægstu útsvarsprósentu sem þekkist í landinu, 13,66%, lægstu fasteignagjöldin og hæstu tómstundastyrkina kr. 50.000.- svo að þrír póstar séu nefndir. Fjárhagur bæjarins ber órækt vitni um ráðdeild. Reikningur síðasta árs skilaði jákvæðri niðurstöðu og hreinar skuldir á íbúa sveitarfélaga 2019 eru lægstar í Seltjarnarnesbæ af þeim sex bæjarfélögum sem nærtækast er að bera saman við.

Undirstaðan er sterk
Enda þótt við Seltirningar eins og aðrir stöndum frammi fyrir efnahagsþrengingum í rekstri sveitarfélagsins, sem og fyrirtækja og einstaklinga, vegna COVID-19 faraldursins er undirstaða okkar bæjarfélags sterk. Eignastaða okkar er traust svo og grunnþjónustan. Við þurfum öll að standa saman um að vernda hátt þjónustustig við alla bæjarbúa, unga sem aldna.

Útgjöld bæjarins hafa verið að hækka umfram hækkun tekna. Það stafar af yfirfærslu málefna frá ríki til sveitarfélaga en á einnig sína skýringu í aukinni þjónustu. Það verður erfiður róður hjá ríkinu og öllum bæjarfélögum í ár og á næsta ári meðan glímt er við COVID-19. Seltjarnarnes verður eins og önnur bæjarfélög fyrir samdrætti í útsvarstekjum, en meirihlutinn leggur mikla áherslu á að halda úti öflugri grunnþjónustu. Fjárhagsstaða bæjarins er óumdeilanlega sterk miðað við flest önnur sveitarfélög vegna þess að bæjarfélagið skuldar lítið.

Myndtexti: Á þessu línuriti sést að Seltjarnarnesbær er í sérflokki og lægstur hvað snertir hreinar skuldir á íbúa.

Mikilvægir innviðir styrktir
Við höfum verið að styrkja mikilvæga innviði í bæjarfélaginu, skólamál hafa alltaf verið forgangsmál og álögur eru meðal þeirra lægstu á landinu eins og áður sagði. Seltjarnarnesbær leggur áherslu á að Nesið sé ávallt leiðandi í skóla-, æskulýðs- og íþróttastarfi á landsvísu, þar sem lögð er áhersla á jöfn tækifæri, árangur og vellíðan.

Það sem skiptir máli er að verja grunnþjónustuna og sníða sér stakk eftir vexti. Við hér á Nesinu þurfum og getum varið þá góðu stöðu sem bæjarfélagið hefur byggt upp. Fyrsta skrefið er að leggja fram á næstunni fjárhagsáætlun fyrir árið 2021, sem tekur mið af þeirri staðreynd að við erum á neyðarstigi COVID-19 með þeim afleiðingum sem það hefur í för með sér.

Á hálfnuðu kjörtímabili er málefnastaða okkar sjálfstæðismanna sterk. Öllum er okkur ljóst að við stöndum í erfiðri glímu og að framundan kunna að vera viðsjárverðir tímar sem munu reyna á okkur öll. Á slíkum tímum skiptir máli að efla samstöðu og styðja vel við bakið á íbúum og starfsfólki bæjarins.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri