Nesið hefur alla þá kosti sem prýða nútíma lífsgæðasamfélag þar sem íbúar fá tækifæri til að njóta framúrskarandi þjónustu og greiða lága skatta. Gildi sjálfstæðisstefnunnar leiða til örvandi áhrifa á efnahag íbúa sem skilar sér til samfélagsins í háum skattstofni og þar með útsvarstekjum. Ábyrgð í rekstri hefur tryggt hátt þjónustustig þrátt fyrir lægri álögur á íbúa. Með ábyrgum rekstri eru allir vegir færir. Við Sjálfstæðismenn viljum tryggja áfram skilvirkan rekstur og hafa álögur lágar og bæta þannig lífskjör. Aðrir listar sem bjóða fram á Nesinu virðast ekki sjá samhengið á milli ábyrgðar í rekstri og stöðugleika í fjármálum sveitarfélagsins. Langtímaáhrif skattahækkana eru jafnan þau að skattstofninn minnkar og erfiðara verður að halda í það þjónustustig sem kröfuharðir íbúar á Nesinu vænta.
Áfram skólar í fremsta flokki
Árangur í menntun skapar farsælt samfélag á Nesinu. Árangur nemenda í skólum hér er mjög góður í samanburði við landið í heild samkvæmt Skólapúlsi sem reiknar landsmeðaltal og meðaltal einstakra skóla. Starfsfólkið er grundvöllur framúrskarandi skólastarfs eins og kom skýrt fram á íbúaþingi um skólamál sem haldið var um daginn þar sem íbúar unnu að framtíðarumgjörð skólamála. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að skapa umgjörð og búa til hvata til eflingar á skólastarfi í skólum bæjarins svo skólarnir verði eftirsóttur vinnustaður og útskrifi áfram framúrskarandi nemendur.
Skýr framtíðarsýn og aukið valfrelsi
Við frambjóðendur á lista Sjálfstæðisflokksins á Nesinu erum með skýra framtíðarsýn og ætlum að láta hendur standa fram úr ermum. Hér njóta íbúar fjölbreyttrar þjónustu en þróa þarf alla þjónustu í takt við nýja tíma. Samhliða byggingu nýs leikskóla ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að auka valfrelsi foreldra til að brúa bilið eftir fæðingarorlof með svokölluðum heimgreiðslum. Þar að auki ætlum við að hækka tómstundastyrk í 75.000 kr. Þá verður valkostum eldri íbúa til búsetu fjölgað með öflugri heimaþjónustu.
Stöðugleiki, gagnsæi og sýnileiki
Það eru bjartir tímar fram undan með fólk í forystu sem ætlar að vinna með stöðugleika, gagnsæi og sýnileika. Við stefnum ótrauð að því markmiði að hækka enn frekar þjónustustigið með hagkvæmum og skilvirkum lausnum.
Tryggjum áfram góðar undirstöður á Seltjarnarnesi. Ekki láta þitt eftir liggja. Mætum á kjörstað þann 14. maí.
Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, frambjóðandi í 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins