Sem formaður skólanefndar á Seltjarnarnesi hef ég verulegar áhyggjur af hinu ótímabundna verkfalli sem stendur yfir í Leikskóla Seltjarnarness, einum af best reknu leikskólum landsins með eitt hæsta hlutfall fagmenntaðra. Það er óumdeilt að faglegt starf leikskóla styrkir stöðugleika og stuðlar að velferð í samfélaginu. Það er því kaldhæðnislegt að einmitt þessi leikskóli, sem hefur verið til fyrirmyndar á landsvísu, sé tekinn úr sambandi með skæruverkfalli.
Með fullri virðingu fyrir verkfallsrétti í kjaraviðræðum, er rétt að spyrja hvort framkvæmd þessa verkfalls sé sanngjörn og lögmæt. Verkfallið bitnar einungis á 3% barna á leikskólaaldri á landsvísu og veldur alvarlegum röskunum í lífi þeirra fjölskyldna sem það snertir. Á sama tíma hefur framkvæmd þess takmarkaðan slagkraft í kjaraviðræðum og vekur upp spurningar um hvort réttlætanlegt sé að beina aðgerðum að svo litlum og afmörkuðum hópi með þessum hætti.
Ég vona að framkvæmd þessa verkfalls verði tekin til skoðunar og að ábyrgir aðilar meti hvort hún samræmist markmiðum sem KÍ hefur sett fram og samfélagsins í heild. Verkfallsréttur er mikilvægur en hann má ekki vera útfærður á þann hátt að velferð þeirra fjölskyldna sem treysta á leikskólaþjónustu sé fórnað.