Skuldavitleysa

Magnús Örn Guðmundsson, formaður bæjarráðs Seltjarnarness: 

Skuldahlutfall sveitarfélaga getur verið villandi stærð um eiginlega fjárhagsstöðu. Ástæðan er sú að hlutfallið fangar t.d. ekki skuldbindingar vegna leigu- og rekstrarsamninga. Þetta á við um Seltjarnarnesbæ, þar sem leiguskuldbindingar ríkisins og Reykjavíkurborgar við bæinn nema meira en helmingi af langtímaskuldum bæjarins, eða um 1.600 milljónum króna. Skuldirnar eru til komnar vegna byggingar hjúkrunarheimilis og fimleikahúss í eigu bæjarins sem eru svo leigð ríki og borg. Í reglugerð um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga (502/2012) er gert ráð fyrir að sveitarfélög taki tillit til m.a. leiguskuldbindinga ríkisins og reikni svokallað skuldaviðmið –  sem gefur réttari mynd en skuldahlutfallið. Hjá Seltjarnarnesbæ var skuldaviðmiðið 65% í lok síðasta árs og stefnir í liðlega 80% í lok þessa árs. Hérna er tekið tillit til skuldbindingar ríkisins gagnvart bænum en þó ekki borgarinnar, en þá væri skuldaviðmiðið 68% en ekki 80%. Lögbundið hámark er 150%. Til samanburðar má nefna að skuldaviðmið Reykjavíkurborgar stefnir í að vera hærra en 150% á næsta ári og ætti það að vera mikið áhyggjuefni fyrir Reykvíkinga.

Langtímaskuldir Seltjarnarnesbæjar

Um síðustu áramót námu langtímaskuldir Seltjarnarnesbæjar um 2.800 milljónum. Að auki nemur lífeyrisskuldbinding um 1.600 milljónum króna. Langtímaskuldirnar eru í grófum dráttum vegna: 1) Bygging hjúkrunarheimilis kostaði 1.500 milljónir sem ríkið borgar að langstærstum hluta 2) Bygging íþróttahúss sem Reykjavíkurborg greiðir að stærstum hluta kostaði 700 milljónir og 3) Nýlegs uppgjörs við lífeyrissjóðinn Brú vegna SALEK-samkomulagsins uppá 650 milljónir. Glöggir lesendur sjá að samtalan af þessu er 2.850 milljónir. Nýlega bættust við lán að upphæð 400 milljónir vegna framkvæmda ársins og næsta árs, m.a. vegna undirbúnings nýs leikskóla og íbúðakjarna fatlaðra.

Skuldasilfur Egils

Í umræðuþætti Ríkissjónvarpsins á dögunum, Silfrinu, sá Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs ástæðu til að nota skuldahlutfall Seltjarnarness, sem segir lítið um fjárhagsstöðu bæjarfélagsins, til að láta borgina (reyndar bara A-hluta hennar) koma betur út í einhverjum samanburði við bæjarfélagið. Hvernig stendur á því? Ég legg til að Þórdís rifji upp skuldbindingu borgarinnar við bæinn, sem er um fimmtungur af langtímalánum bæjarins. Öll hljótum við að fyrirgefa formanni borgarráðs yfirsjónina – slíkt er umfang skulda og skuldbindinga borgarinnar.

Víða Viðreisnarvilla

Flokksbróðir Þórdísar í Viðreisn, Karl Pétur Jónsson bæjarfulltrúi, vill meina að skuldir Seltjarnarnesbæjar megi skýra með langvarandi tapi af daglegum rekstri. Þetta staðhæfði hann í frétt Fréttablaðsins 17. desember – án þess að blaðamaður gæfi stjórnendum bæjarins færi á andsvari. Fullyrðingin er röng eins og sjá má að framan en ég má þó til með að árétta líka að hækkun lífeyriskuldbindinga er ekki daglegur rekstur. Á síðastliðnum fimm árum hafa lífeyrisskuldbindingar hækkað um 750 milljónir króna. Með sérstakri gjaldfærslu vegna SALEK-samkomulagsins til Brúar lífeyrissjóðs er samtalan raunar 930 milljónir. Þetta skýrir að mestu þann bókhaldslega hallarekstur af bæjarsjóði Seltjarnaness sem minnihlutinn þar réttlætir með skattahækkunum ásamt reyndar téðum laumufarþega – sem seint verður fyrirgefið. Aðalatriðið er að fjárhagsstaða bæjarins er býsna sterk og framtíðin er björt á Seltjarnarnesi. Og skattar munu lækka aftur.

Magnús Örn Guðmundsson

Formaður bæjarráðs Seltjarnarness