Á síðustu misserum hafa margvíslegar áskoranir blasað við Seltjarnarnesbæ líkt og öðrum sveitarfélögum. Mikil hækkun launa opinberra starfsmanna og lífeyrisskuldbindinga hafa verið krefjandi og heimsfaraldur þyngt róðurinn enn frekar. Vel hefur tekist að stýra sveitarfélaginu í gegnum brimskaflinn og aukning skulda er hófleg. Skuldaviðmið Seltjarnarnesbæjar er með því lægsta sem gerist en lág skuldastaða og skynsemi í fjárfestingum er algjör forsenda framfara.
Sterkur grunnrekstur og bjartir tímar fram undan
Á síðasta ári hækkuðu skatttekjur bæjarsjóðs um 6,2% og voru yfir 3,6 milljarðar króna. Laun, sem eru langstærsti gjaldaliður bæjarins, hækkuðu um 2,5% á sama tíma og námu um 2,8 milljörðum. Annar rekstrarkostnaður hækkaði hins vegar meira, eða um 8,6% og skýrist að miklu leyti af aðgerðum vegna Covid faraldursins, líkt og árið áður. Stundum gleymist hversu faraldurinn gekk nærri heimilum og hinu opinbera, enda vilja flestir gleyma honum. Bjartari tímar eru framundan. Afkoma af grunnrekstri bæjarins var betri en áætlun gerði ráð fyrir og fer sífellt batnandi. Rekstrarniðurstaðan af A sjóði fyrir breytingu á lífeyrisskuldbindingu var halli upp á 128 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir tæpum 200 m.kr. Í ár er gert ráð fyrir að rekstur bæjarins komist í gott jafnvægi.
Hvað er lífeyrisskuldbinding?
Lífeyrisskuldbinding er einfaldlega sá lífeyrir sem bærinn þarf að greiða starfsmönnum á lífeyrisaldri í framtíðinni. Hækkun launa og lífaldurs hefur m.a. gert það að verkum að þessi uppsafnaða skuld hefur hækkað verulega á síðustu árum og þessi liður því fyrirferðamikill í reikningum sveitarfélaga síðustu ár. Þegar skuldin er uppreiknuð af tryggingastærðfræðingi hefur það hvorki áhrif á fjárflæði né þjónustu frá ári til árs. Hækkunin er bókhaldsleg en vitanlega þarf að greiða hana í framtíðinni ef líkönin ganga eftir. Minnihlutinn í bæjarstjórn hefur gert sér mat úr þessu og kallað hækkun lífeyrisskuldbindingar ósjálfbæran rekstur. Þetta er útúrsnúningur sem hentar þeim vel til að hækka skatta. Á síðasta ári nam hækkun lífeyrisskuldbindingar hjá bænum yfir 450 milljónum. Eins og áður sagði kemur þetta til vegna launahækkana og hækkandi lífaldurs, m.ö.o. tryggingastærðfræðingar voru að uppfæra líkön sem spá fyrir um hvað sveitarfélög þurfa að borga næstu áratugina. Til samanburðar nam þessi hækkun tæpum 600 m.kr. hjá Vestmannaeyjabæ og 530 m.kr. hjá Mosfellsbæ, svo dæmi um smærri sveitarfélög séu tekin. Aðalatriðið er þetta: Hækkun lífeyrisskuldbindingar er bókhaldsleg stærð og er alls ekki hallarekstur sem skerðir þjónustu. Og hún er ekki einskorðuð við Seltjarnarnes.
Lágar skuldir eru lykilatriði
Fjárhagsstaða bæjarins er sterk. Langtímaskuldir A sjóðs nema um 2,9 milljörðum og jukust um 400 m.kr. á árinu og langtímaskuldir samstæðu nema um 3,4 milljörðum. Á móti langtímaskuldum A sjóðs kemur núvirt krafa á ríkið vegna hjúkrunarheimilisins Seltjarnar að upphæð tæpum 1,1 milljarði sem lækkar skuldaviðmið. Langtímalán bæjarins eru vegna fjárfestinga, aðallega vegna byggingar hjúkrunarheimilis og fimleikahúss. Samtals um 1,6 milljarður. Að baki lánunum eru verðmætar fasteignir. En þar að auki greiðir Reykjavíkurborg að stærstum hluta fyrir fimleikahúsið með leigusamningi til 20 ára og ríkið greiðir 85% af hjúkrunarheimilinu með leigusamningi sömuleiðis. Með öðrum orðum þá eru skuldir bæjarins ekki vandamál heldur dæmi um góða fjármálastjórn.
Skuldaviðmið langt undir mörkum
Þegar lagt er mat á fjárhagslegt heilbrigði sveitarfélaga er svokallað skuldaviðmið besti mælikvarðinn. Því er ætlað að gefa sem gleggsta mynd af raunverulegum skuldbindingum hvers sveitarfélags. Skuldaviðmið Seltjarnarnesbæjar var 80% í árslok en var 65% árið 2020. Lögbundið hámark er 150%. Seltjarnarnesbær á kröfu á Reykjavíkurborg að upphæð liðlega 600 m.kr. vegna fimleikahúss sem getið er um í skýringum með ársreikningi. Kröfur á ríkið (1,1 milljarður) og Reykjavíkurborg (600 m.kr.) eru því um helmingur af langtímaskuldum bæjarins. Gert er ráð fyrir frekari lántöku vegna byggingar nýs leikskóla á þessu ári en það er í raun síðasta stóra innviðafjárfestingin á næstu árum. Veltufé samstæðu nam 353 m.kr. en veltufé segir til um getu bæjarins til að greiða af lánum og ráðast í fjárfestingar.
Viðspyrna framundan – og lágir skattar
Fram undan eru bjartari tímar. Hafist var handa við byggingu búsetukjarna fyrir fatlaða einstaklinga á árinu auk annarra framkvæmda. Atvinnuleysi stóð í 9,6% í upphafi síðasta árs, var liðlega 6% um miðbik ársins en var komið í 3,4% á Seltjarnarnesi í árslok. Samfara lágu atvinnuleysi, fólksfjölgun og hagvexti munu útsvarstekjur styrkjast verulega á komandi misserum. Íbúum mun fjölga á næstu árum og munu tekjur bæjarins aukast með tilkomu Gróttubyggðar um 300-400 m.kr. Tekjustoðir bæjarins standa því traustum fótum þrátt fyrir lágar álögur og tækifæri liggja í að gera reksturinn skilvirkari. Hækkun skatta leysir engan vanda og hefur aldrei gert. Hækkun skatta getur hins vegar búið til vanda og leitt sjónar af öðru en grunnrekstri yfir í gæluverkefni og of mikla yfirbyggingu. Þetta sýna dæmin í Reykjavík, þar sem flokkar minnihlutans á Seltjarnarnesi ráða för. Það fordæmi ber að varast. Þess vegna er best að kjósa nýjan kraft á traustum grunni.