Það er kraftur í okkur

Nú er metnaðarfull stefnuskrá okkar Sjálfstæðismanna komin í hendur bæjarbúa. Leiðarstef hennar er vellíðan, góð þjónusta og velsæld bæjarbúa. Við sem skipum framboðslista Sjálfstæðismanna erum afar stolt af þeim fjölmörgu málum sem við berum á borð fyrir ykkur. Sum þessara áherslumála eru brýnni en önnur og viljum við setja þau strax á dagskrá á fyrstu vikum nýs kjörtímabils.

Falleg ásýnd bæjarins

Nú þegar við göngum að kjörborðinu er afar mikilvægt að hafa í huga þau skilaboð og ábendingar sem við höfum fengið frá íbúum. Við Sjálfstæðismenn héldum á dögunum sérlega fjölmennt hugmyndaþing um það hvað íbúar vildu helst setja á oddinn. Fjöldi góðra ábendinga barst og var hluti þeirra nýttur í stefnuskrá okkar.  Mjög margir bentu á viðhald gatna og göngustíga, mikilvægi bættrar lýsingar og endurnýjun leiksvæða. Við svörum kalli bæjarbúa um þessi mikilvægu ásýndarmál sem eru ekki síður öryggismál.

Við áformum að setja upp forgangsmiðaða viðhaldsáætlun í góðu samráði við bæjarbúa á hverjum tíma.  Mikill metnaður verður lagður í  jákvæða og góða ásýnd bæjarins alls næstu fjögur ár . Lykillinn að vel reknum og fallegum bæ er góð yfirsýn yfir ástand eigna og að gripið sé til aðgerða tímanlega til að fyrirbyggja skemmdir.

Forgangsmál okkar er hönnun og bygging nýs leikskóla fyrir allt að 150 börn. Við leggjum upp með að hanna bygginguna í samráði við fagfólk leikskólans þannig að aðstaða barna og starfsfólks verði til fyrirmyndar. Allt kapp er lagt á að ný bygging komist sem fyrst í gagnið. 

Jákvæð opin og bætt samskipti

Við Sjálfstæðismenn boðum bætt samskipti. Þá erum við að tala um að forsvarsmenn bæjarins verði í enn meiri tengingu við starfsmenn bæjarins og kynnist störfum frá öllum hliðum. Liðsheild er eitthvað sem við leggjum mikla áherslu á. Við erum öll í sama liði – bæjarstjórn og starfsmenn bæjarins. Okkar áhersla er á enn meiri samskipti, fundi með starfsmönnum stofnana ásamt hlustun og skilningi á aðstæðum og störfum allra. Við ætlum sannarlega að vera dugleg að hrósa fyrir það sem vel er gert og veita góða og jákvæða endurgjöf. 

Einnig verðum við sýnileg á meðal bæjarbúa og alltaf til viðtals um hvað betur má fara og vel er gert. Ný glæsileg heimasíða bæjarins verður sett í loftið og þar verður aðgengileg ábendingagátt þar sem íbúar geta alltaf komið ábendingum til bæjaryfirvalda um hvað betur má fara eða hvað hefur verið vel gert.

Hlustað á íbúa

Það sem hér hefur verið tilgreint varðandi ásýnd bæjarins og samskipti er hluti af okkar lykilmálum. Það var afar ánægjulegt að fá innlegg í stefnu okkar frá öllum þeim fjölmörgu íbúum sem mættu á hugmyndaþing sem við héldum í Golfskálanum í aðdraganda kosninga. Sú reynsla sem við fengum þar mun nýtast okkur áfram við stjórn bæjarfélagsins því vel kemur til álita að halda reglulega svona viðburði þar sem bæjarbúar verða kallaðir til hugmyndavinnu.

Bjartir tímar og lægri skattar

Fram undan er uppbyggingarskeið þar sem ný byggð mun brátt rísa við Bygggarða. Gert er ráð fyrir fjölgun íbúa og auknum skatttekjum. Þá gefur minnkandi atvinnuleysi auk væntinga um sterkan hagvöxt á komandi árum tilefni til bjartsýni um tekjuþróun bæjarins.

Það er á þessum forsendum og þeirri staðreynd að Seltirningar greiddu á síðasta ári fjórða hæsta útsvar á mann á landinu í krónum talið sem við Sjálfstæðismenn sjáum fyrir gott svigrúm bæjarins til að lækka útsvarið aftur í 13,7% og afmarka í krónum talið hækkun fasteignaskatta. 

Erum tilbúin til  starfa

Sá glæsilegi og samhenti listi sem við bjóðum fram er tilbúinn til starfa með ykkur og fyrir ykkur. Í okkar röðum er mikil og víðtæk reynsla og auk þess hæfileikar sem nýtast okkar bæjarfélagi í allar áttir til góðs.

Ég vonast til að bæjarbúar séu með okkur Sjálfstæðismönnum í liði um að festa og ábyrgð sé áfram grunnstefið í stjórn Seltjarnarnesbæjar.

Áfram XD!

Þór Sigurgeirsson, oddviti Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi