Kæru vinir og félagar!
Ég óska eftir stuðningi ykkar við framboð mitt í 1. sæti í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna þann 26. febrúar nk. Ástæða framboðsins er í raun afar einföld. Bæði hefur fjöldi bæjarbúa, þ.m.t. margir flokksbundnir sjálfstæðismenn, lengi hvatt mig til að bjóða mig fram og ég ákvað að hlusta á hjartað. Ég svara því kallinu með ánægju enda hef ég einlægan áhuga og vil láta gott af mér leiða. Tækifærið er nú þegar að mikil endurnýjun verður á forystusveit okkar. Ég mun koma ferskur inn um leið og ég bý að þeirri dýrmætu reynslu að hafa áður verið bæjarfulltrúi með öllu sem því fylgir.
Vil þjóna bæjarbúum
Þeir sem mig þekkja vita að ég er á jákvæðu hliðinni í lífinu sjálfu, framboð mitt í 1. sætið er hins vegar ekkert grín heldur full alvara. Ég vil berjast fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn vinni öruggan sigur í kosningunum í maí nk. og haldi af festu um stjórnartaumana næsta kjörtímabilið. Það eru verk að vinna og til þess þarf sterka stefnu og öfluga liðsheild sjálfstæðismanna. Leiðtogahlutverkið felur í sér mikla ábyrgð og hana er ég tilbúinn að axla. Mér þætti mikill heiður að fá að þjóna bæjarbúum sem bæjarstjóri á Seltjarnarnesi líkt og pabbi gerði svo farsællega í 40 ár. Af auðmýkt og miklum metnaði mun ég leggja mig allan fram á komandi kjörtímabili, treysti kjósendur mér fyrir oddvitasætinu í prófkjörinu.
Ég hef óbilandi trú á jákvæðum, opnum og heiðarlegum samskiptum. Ég er diplómatískur og lausnamiðaður. Að mynda gott lið þar sem styrkleikar hvers og eins fá að blómstra er mér gefið. Ég er drífandi og hef alltaf unnið eftir markmiðum sem hefur virkað afar vel. Ég er talsmaður sýnileika og þess að vera úti á örkinni að hitta starfsfólk og íbúa – hlusta, ræða hugmyndir, skiptast á skoðunum og huga að vellíðan. Ánægja starfsfólks er mér hugleikin því starfsánægja skilar yfirleitt úrvals þjónustu, en það skilar sér í ánægðum íbúum. Það er og verður alltaf markmið mitt.
Mín sýn:
Áherslur mínar eru fjölbreyttar eins og bæjarmálin eru öll. Fyrst og fremst vil ég framúrskarandi samfélag og fallegt Seltjarnarnes til framtíðar. Það felur m.a. í sér:
- Ábyrga fjármálastjórn – lægri álögur, skynsamur og hagkvæmur rekstur er forsenda alls. Ég vil að álögum sé stillt í hóf en um leið þurfum við að standa undir háu þjónustustigi og framþróun. Ég vil því velta upp og skoða nýjar og gamlar hugmyndir sem geta nýst bæjarsjóði til tekjuaukningar.
- Grunnþjónusta verður ávallt í forgangi. Standa þarf vörð um öll okkar lögbundnu verkefni og gera það vel, skólarnir áfram í fremstu röð, velferðarmálin og að hlúð verði að eldri bæjarbúum og barnafjölskyldum.
- Frumkvæði, framtíðarsýn – ný nálgun á bæjarmálin. Vinna að fleiri stafrænum þjónustulausnum til einföldunar og hagræðingar fyrir bæði íbúa og starfsfólk. Ég vil skapa og grípa tækifæri okkur til hagsbóta.
- Jákvæð, opin og uppbyggileg samskipti. Hér búum við saman í einstöku samfélagi og dásamlegri náttúruperlu sem Seltjarnarnesið er. Njótum þess með jákvæðu samtali, samvinnu og líflegu mannlífi.
- Íþróttir og lýðheilsa fyrir unga sem aldna. Ég vil vinna markvissar með heilsueflandi verkefni sem auka heilbrigði, ánægju og lífsgæði bæjarbúa auk þess að stuðla að forvörnum.
- Aðlaðandi ásýnd bæjarins með viðhaldi og umhirðu. Seltjarnarnes er eftirsóknarvert sveitarfélag með sterka innviði. Það er hins vegar brýnt að fara í viðhald m.a. gatna, leiksvæða og fegrun umhverfisins.
- Umhverfisvænn rekstur – Seltjarnarnes fremst í grænni þróun. Ég vil sjá okkur taka forystu í umhverfismálum og innleiða þá hugsun inn í allan rekstur bæjarins.
Þetta er aðeins brot af sýn minni en ég hef margar hugmyndir varðandi Seltjarnarnesið og framtíðina. Ég hlakka til að setja mig af meiri dýpt inn í bæjarmálin og taka þátt þeim í krefjandi verkefnum sem bærinn sinnir með góðu fólki. Mörg hver ný og spennandi sbr. Gróttubyggð, búsetukjarni og leikskóli sem senn munu rísa og mikilvægt er að takist vel til eins og allt í starfsemi bæjarins.
Um mig
Bakgrunnur minn er úr sölu- og markaðsmálum en ég hef alla tíð starfað í þeim geira, lengst af við vátryggingar fyrirtækja og einstaklinga. Undanfarin ár hef ég starfað við sölu-og verkefnastjórn hjá Rými ehf. Ég er kvæntur Maríu Björk Óskarsdóttur sviðsstjóra hjá Seltjarnarnesbæ og sem faðir fjögurra barna frá 12-24 ára hefur aðkoma að skóla-, íþrótta- og tómstundastarfi hér verið mikil. Ég er fastagestur í Sundlaug Seltjarnarness, spila golf í Nesklúbbnum og hjarta mitt slær með jafnaldra mínum, Gróttu, bæði „fædd“ í apríl 1967. Ég æfði handbolta og fótbolta, er í Old boys og fer reglulega á Gróttuleiki. Nýt þess ennfremur að labba um Nesið og upplifa náttúruna.
Ég er umfram allt stoltur Seltirningur og vil Seltjarnarnesi allt hið besta. Ég hef verið virkur í bæjarlífinu alla tíð, veit fátt skemmtilegra en að spjalla við bæjarbúa um málefni bæjarins og vil leggja mitt af mörkum til að gera samfélagið okkar enn betra. Seltjarnarnesi er að mínu mati best borgið undir öflugri stjórn sjálfstæðismanna, þannig hefur það ávallt verið og þannig vil ég hafa það áfram. Það er hins vegar ekki sjálfgefið og þess vegna býð ég mig fram til forystu fyrir ykkur!
Ég bið um stuðning í 1. sæti listans og til góðra verka fyrir Seltjarnarnes.
Með góðri kveðju,
Þór Sigurgeirsson
Velkomið að hafa samband:
Sími: 780 7777
Netfang: thor.sigurgeirsson@gmail.com