Tómstundastyrkur barna hækkar

Tómstundir og félagsstarf barna og ungmenna eru mikilvægur þáttur í uppeldi, því félagsmótun fer fram í samskiptum þeirra við vini og jafnaldra. Tíminn eftir skóla skiptir máli og þess vegna er mikilvægt að sem mest jafnræði ríki meðal barna um að geta tekið þátt í uppbyggilegu tómstundastarfi eftir að skóla lýkur. Meginmarkmið tómstundastyrkja er að auðvelda öllum börnum að sinna uppbyggilegu tómstundastarfi óháð efnahag fjölskyldna eða félagslegum aðstæðum og á sama tíma efla tómstunda- og forvarnastarf. Með tómstundastyrkjum má greiða að hluta tómstundaiðkun hvort sem þær eru stundaðar á Seltjarnarnesi eða í nágrannasveitarfélögum. Minnt er á að þeir sem eiga eftir að sækja um styrki fyrir árið 2022 hugi að því fyrir áramót. Öll börn á aldrinum 5 – 18 ára og hafa lögheimili á Seltjarnarnesi eiga rétt á styrknum.

Hærri styrkur frá áramótum

Til þess að gera börnum og ungmennum á Seltjarnarnesi betur kleift að taka þátt í skipulögðu tómstunda- og íþróttastarfi, setti Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi í stefnuskrá sína í kosningunum í vor að hækka tómstundastyrk barna frá fimm ár aldri úr 50.000 kr. í 75.000 kr. frá og með janúar 2023. Við lítum svo á að þessi stuðningur bæjarins við tómstundastarf barna og unglinga sé mikilvægur liður í forvörnum fyrir þennan aldurshóp. Þá er það von Sjálfstæðisflokksins að hækkunin stuðli að auknu valfrelsi og jöfnuði en eitt af leiðarljósum Seltjarnarnesbæjar sem heilsueflandi samfélag er jöfnuður í heilsu með almennum aðgerðum.

Sérstök fjárhagsaðstoð

Að lokum viljum við nýta tækifærið og benda á þann möguleika sem getið er í reglum um fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu Seltjarnarnesbæjar frá árinu 2019 og finna má á heimasíðu bæjarins, en í 16. gr. segir að fjölskyldur geti sótt um sérstaka fjárhagsaðstoð til að mynda til að greiða fyrir tómstundir barna.

 

Hildigunnur Gunnarsdóttir, formaður fjölskyldunefndar

Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, varaformaður fjölskyldunefndar