Við íbúar á Seltjarnarnesi erum um 4.700 talsins. Þar af eru Seltirningar á aldrinum 10-29 ára 1.225 eða ríflega fjórðungur íbúa. Mikilvægt er að þessi hópur hafi rödd. Ungt fólk hefur löngum upplifað sig áhrifalaust vegna þess að það er ungt. Þegar ungt fólk er spurt hvers vegna það nýti síður kosningarétt sinn eru svörin iðulega á þá leið að það skorti aðgengilegar upplýsingar. En þrátt fyrir æ betra aðgengi að upplýsingum hefur þessi hópur fjarlægst stjórnmál. Vafalaust hafa flestir þeir sem eldri eru upplifað sig í þessum sporum á sínum yngri árum.
Öldurót Covid hefur fært okkur ný tækifæri til að mæta á fundi um hin ýmsu málefni án þess að yfirgefa heimilið. Eru nú uppi aðstæður til að vekja áhuga ungs fólks á stjórnmálum sem aldrei fyrr. Mæta ungu fólki á þeirra forsendum. Hinar ýmsu rannsóknir hafa leitt í ljós að kosningaþátttaka eykst samfara aukinni þekkingu á stjórnmálum. Fólk með miðlungs eða mikla þekkingu á stjórnmálum er því líklegra til að nýta kosningarétt sinn en fólk með litla þekkingu. Rödd ungs fólks þarf að heyrast og nú þegar þátttaka í samfélaginu hefur að einhverju leyti færst yfir á stafrænt form eru augljós tækifæri til áhrifa.
Við í Sjálfstæðisfélagi Seltirninga höfum ávallt lagt áherslu á að virkja unga Seltirninga til áhrifa og á næstu mánuðum munum við m.a. birta efni á Facebook síðu félagsins um málefni ungs fólks. Til að gera enn betur viljum við í Sjálfstæðisfélagi Seltirninga efla starf Baldurs, félags ungra sjálfstæðismanna, og leitum nú að áhugasömum einstaklingum sem taka fagnandi við ábyrgð á verkefnum og eru tilbúnir til að hvetja aðra til að sýna frumkvæði í verki. Við leitum að fólki (16-35 ára) til að setjast í stjórn Baldurs og er áhugasömum bent á að senda skilaboð á Facebook (facebook.com/baldurxd) eða með tölvupósti (seltjarnarnes@xd.is). Verkefnin eru fjölbreytt og ný stjórn Baldurs fær tækifæri til að efla starfið frá því sem verið hefur. Búum saman til betra Seltjarnarnes. Við þau ykkar sem teljið vænlegt að bíða með stjórnarsetu þangað til seinna sökum anna í námi eða vinnu segjum við; það er enginn tími betri en einmitt núna.
F.h. stjórnar Sjálfstæðisfélags Seltirninga
Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir