Dagbjört sækist eftir 2. sæti

Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi í prófkjöri sem fer fram 26. febrúar nk. Dagbjört er sjálfstætt starfandi lögmaður og atvinnurekandi, hún útskrifaðist úr meistaranámi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2010 þar sem hún sérhæfði sig í sveitarstjórnarrétti og öðlaðist lögmannsréttindi sín árið 2012. Dagbjört er gift Knúti Rúnari Jónssyni framkvæmdastjóra og eiga þau saman þrjú börn. Dagbjört hefur verið búsett á Seltjarnarnesi síðastliðin tíu ár. Hún situr í stjórn Sjálfstæðisfélags Seltirninga og er nefndarmaður í íþrótta- og tómstundanefnd Seltjarnarnesbæjar. Þá hefur Dagbjört setið í stjórn foreldrafélags leikskólans. Dagbjört leggur áherslu á ráðdeild í rekstri, lága skatta og mikilvægi þess að sveitafélög leggi áherslu á lögbundin verkefni sín við forgangsröðun.

Dagbjört segir Seltjarnarnes vera framúrskarandi sveitarfélag og að því beri að þakka metnaðarfullum bæjarbúum og þeirra fulltrúum sem stýrt hafa sveitarfélaginu af miklum glæsibrag um áratugaskeið. Hún telur rekstur bæjarins síðustu tveggja ára hafa einkennst af festu og stöðugleika þrátt fyrir þær áskoranir sem bærinn hefur staðið frammi fyrir m.a. vegna heimsfaraldurs. Dagbjört segir að áfram muni áskoranir blasa við og því mikilvægt að mæta þeim, líta á þær sem tækifæri og vera jákvæð gagnvart breytingum. Dagbjört telur að með skýrum markmiðum og forgangsröðun verkefna sé hægt að tryggja enn betri lífsgæði á Seltjarnarnesi. Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar leggur hún því áherslu á að forgangsraða rétt, skerpa á grunnþjónustu í þágu bæjarbúa, sýna aðhald í fjármálum bæjarins og nýta upplýsingatækni til samskipta. Hún telur tækifæri leynast víða í rekstri bæjarins og ljóst að með samvinnu, metnaði og fagmennsku er hægt að tryggja áframhaldandi framúrskarandi þjónustu.

„Ég hef mikinn áhuga á að móta umhverfi okkar Seltirninga með þátttöku í sveitarstjórn. Ég vil láta verkin tala og mun leitast við að taka afstöðu til mála út frá mati á heildarhagsmunum. Ég hef fulla trú á að menntun mín og starfsreynsla muni nýtast vel við ákvarðanatöku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélagsins.

Áherslur mínar eru lágir skattar og skynsamur rekstur, framúrskarandi skólar með tengingu við öflugt íþrótta- og tómstundalíf og aðgerðir fyrir unga sem aldna sem stuðla að betri lýðheilsu og lífsgæðum. Að auki vil ég beita mér fyrir skilvirkri stjórnsýslu, auknu gagnsæi og betri þjónustu með stafrænum lausnum.

Ég er metnaðarfull og ábyrg og hef löngun til að tryggja áfram ábyrga fjármálastjórn á Seltjarnarnesi í sterkri liðsheild.“