Góð staða í skólamálum

Haustrútínan er tekin við og stundatöflur klárar. Undanfarna daga og vikur hafa foreldrar fengið pósta úr fjölmörgum áttum og hafa ekki undan við að skreyta dagatalið, taka við upplýsingum sem mynda ákveðna festu, röð og reglu. Hjá undirritaðri kallar þetta alltaf fram góða tilfinningu yfirvegunar og stöðugleika eftir handahófskennda sumartíð.

Fyrsti fundur nýskipaðrar skólanefndar Seltjarnarnarnesbæjar var haldinn 7. september sl. Á fundinn mættu fulltrúar Leikskóla Seltjarnarness, Grunnskóla Seltjarnarness og Tónlistarskóla Seltjarnarness.

Ljóst er að fyrstu dagar í skólanum fara vel af stað og flest börnin taka glöð á móti rútínunni. Skólanámskrá grunnskólans og kennsluáætlanir eru vel á veg komnar og verða birtar á heimasíðu skólans á næstu dögum. Í nágrannasveitarfélaginu heyrast óánægjuraddir vegna langra biðlista í frístund. Öðru máli gegnir um skóladagvist í Grunnskóla Seltjarnarness þar sem Skjólið og Frístund hafa tekið við öllum börnum í 1. – 4. bekk sem óskað var eftir vistun fyrir.

Mönnun hefur gengið vonum framar

Vel hefur gengið að manna lausar stöður á leikskólum bæjarins en undanfarin misseri hefur mönnun verið stærsta áskorunin þegar kemur að inntöku barna að hausti. Staðan er mjög góð og því er að þakka leikskólastjórnendum. Stefna Seltjarnarnesbæjar hefur verið að taka 14 mánaða gömul börn inn á leikskóla í ágúst ár hvert. Þetta markmið er að sjálfsögðu háð fjölmörgum breytum en ljóst er að róið hefur verið að því öllum árum að ná markmiðinu. Nú hafa öll börn sem fædd eru árið 2020 og sótt var um leikskóladvöl fyrir áður en umsóknarfrestur rann út þann 31. mars 2022 fengið boð um pláss í Leikskóla Seltjarnarness. Í Ungbarnaleikskóla Seltjarnarness eru yngstu börnin sem fengið hafa boð um pláss fædd í maí 2021. Inntaka nýrra barna er gerð í skrefum en öll börn hefja leikskólagöngu fyrir lok september sem er gleðiefni.

Endurskoðun skólastefnu Seltjarnarnesbæjar

Skólastefnu þarf að endurskoða reglulega enda inniheldur hún markmið sem þurfa að svara kalli tímans og endurspegla ábyrgð skólanna á árangri nemenda í samvinnu við foreldra og forráðamenn. Ný menntastefna verður kynnt á yfirstandandi skólaári með nýjum áherslum í takt við breytta tíð og ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Samkvæmt nýlegri rannsókn meðal nemenda í 8-10. bekk kom í ljós að áhyggjur eiga ekki síst að beinast að skjánotkun, svefnleysi, orkudrykkjum og nikótínpúðum. Þessar niðurstöður þarf að kynna áfram vel og ítrekað.

Vonir nýs formanns Skólanefndar

Það er von undirritaðrar að ný heimasíða bæjarins líti dagsins ljós fyrr en seinna svo upplýsingar verði aðgengilegri og tölvupóstum að hausti fækki. Það er vandasamt að stýra sveitarfélagi og fjárhagsstaða getur sett takmörk en með ríka áherslu á forgangsröðun, góða upplýsingagjöf og kraftmikla samvinnu tryggjum við áfram öflugt nærsamfélag. Stefnum öll að sama marki og veitum börnunum okkar fyrirmyndarþjónustu. Gleðilega rútínu kæru Seltirningar.

Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, varabæjarfulltrúi og formaður Skólanefndar