Grétar Dór sækist eftir 4. til 5. sæti

Ágætu Seltirningar!

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 4.-5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og sækist eftir stuðningi ykkar bæjarbúa.

Ég er sjálfstætt starfandi hæstaréttarlögmaður og meðeigandi að Lögfræðistofu Reykjavíkur. Samhliða lögmannsstörfum hef ég setið í stjórnum fyrirtækja og félagasamtaka. Ég bý að mikilli reynslu af úrlausn flókinna álita- og deiluefna, kann að beina málum í réttan farveg og er óhræddur við að taka af skarið. Undanfarin tvö ár hef ég setið í stjórn Sjálfstæðisfélags Seltirninga og öðlast góða innsýn í málefni bæjarins.

Viðfangsefni sveitarfélaga eru að miklu leyti lögbundin en þó er rúm fyrir áherslur. Auk virðingar fyrir skattfé bæjarbúa eru einstök áherslumál mín þessi.

Lækkun fasteignagjalda
Hækkun fasteignaverðs hefur verið nær gegndarlaus undanfarin ár. Þrátt fyrir að fasteignaeigendur auki þannig við eigið fé sitt er sá galli á gjöf Njarðar að fasteignagjöld reiknast sem hlutfall af fasteignamatsverði. Þetta kemur sérstaklega illa niður á heldri bæjarbúum sem treysta í mörgum tilvikum á lífeyri sér til framfærslu. Nær væri að álagning taki mið af almennri hækkun verðlags.

Metnaður í umhverfisvernd
Seltjarnarnesbær hefur alla burði til að vera leiðandi í umhverfisvernd. Að mínu mati hefur skort á metnað í þessum efnum. Umhverfismál, ekki síst loftlagsmál, eru brýnasta viðfangefni heimsbyggðarinnar og það er kominn tími til að Seltjarnarnesbær taki á þeim af festu.

Skilvirk stjórnýsla
Það er hlutverk bæjarins að veita íbúum þjónustu og bregðast við erindum af fagmennsku og án málalenginga. Ég tel að stjórnsýsla bæjarins megi að mörgu leyti vera skilvirkari og ég mun beita mér fyrir því að svo verði.

Sókn í leikskólamálum
Undanfarin ár hefur ungt fólk flykkst á Nesið enda er hvergi betra að búa. Þeirri ánægjulegu þróun hefur fylgt aukinn fjöldi barna á leikskólaaldri. Að mörgu leyti hefur bænum tekist vel til að bregðast við frá ári til árs en nú er tímabært að snúa vörn í sókn. Engin þörf er á glæsihýsi en hefja þarf byggingu nýs og hagkvæms leikskóla án tafar þannig að vel fari um börnin og okkar góða starfsfólk.

Ég hef búið á Seltjarnarnesi frá æsku og er hreykinn af því góða samfélagi sem okkur hefur tekist að byggja upp. Ég hef mikinn metnað til að vinna í þágu bæjarbúa og tryggja að Seltjarnarnes verði áfram í fremstu röð. Ég gef þess vegna kost á mér til að sinna trúnaðarstörfum fyrir bæinn og treysti á stuðning bæjarbúa.