Lengi býr að fyrstu gerð

Lengi býr að fyrstu gerð

Á yfirstandandi kjörtímabili gerðist Seltjarnarnesbær aðili að verkefninu Heilsueflandi samfélag í samráði og samstarfi við Embætti landlæknis. Markmið bæjarins er að skapa umhverfi og aðstæður í samfélaginu sem stuðla að heilbrigðum lífsstíl, heilsu og vellíðan bæjarbúa á öllum æviskeiðum. Með stefnumótun og aðgerðum getur bærinn haft jákvæð áhrif á mikilvæga áhrifaþætti heilbrigðis svo sem menntun, félagsþjónustu, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf, félagslegar aðstæður, byggt og náttúrulegt umhverfi auk skipulags og samgangna. Með markvissu forvarnarstarfi og fræðslu má enn fremur hafa áhrif á lífsstíl, svo sem hreyfingu, geðrækt, næringu, svefn, kynheilbrigði og notkun vímuefna.

Áskorun frá skólasamfélaginu

Nýverið barst áskorun á borð skólanefndar frá stjórn foreldrafélags Grunnskóla Seltjarnarness og kennurum á unglingastigi. Líst var yfir áhyggjum af því að svigrúm til að sinna forvarnarmálum væri ekki nægilegt og að vísbendingar væru um að faraldurinn hefði haft neikvæð áhrif á skólasókn og vímuefnanotkun í samfélaginu. Skorað var á bæjaryfirvöld að bregðast við því með því að ráða æskulýðsfulltrúa í fullt starf og hækka starfshlutfall forstöðumanns Selsins, félagsmiðstöðvar ungmenna, úr 80% í 100% starf.

Máli vísað til fagstjóra

Það er óhætt að segja að skólanefnd, fagnefnd bæjarins, hafi tekið erindinu mjög alvarlega. Allir nefndarmenn, þvert á flokkslínur, samþykktu að málinu yrði vísað strax til fagstjóra bæjarins; sviðsstjóra fjölskyldusviðs. Var honum falið að gera faglegt mat á þörfinni í samvinnu við forstöðumann Selsins og koma með tillögur um úrbætur ef þörf krefði. Málið var þar með komið í eðlilegt ferli innan stjórnsýslunnar aðeins átta dögum eftir að erindið barst.   

Góð stjórnsýsla og ábyrg fjármálastjórn 

Fundargerð skólanefndarfundarins var lögð fyrir síðasta bæjarstjórnarfund til staðfestingar. Engar athugasemdir bárust frá bæjarfulltrúum við afgreiðsluna. Í lok fundar lögðu hins vegar bæjarfulltrúar minnihluta í bæjarstjórn, ásamt Bjarna T. Álfþórssyni, fram tillögu um að ráðinn verði æskulýðsfulltrúi í fullt starf frá hausti 2022, vitandi að málið væri þegar komið í ferli og niðurstaða faglegs mats á þörfinni lægi ekki enn fyrir.

Sú sem hér heldur á penna fór í pontu og benti góðfúslega á að málið væri í eðlilegum farvegi innan stjórnsýslunnar í samræmi við niðurstöðu fagnefndar bæjarins og áréttaði þá skoðun sína að fagfólkið sem fer fyrir málaflokknum hjá bænum fengi tækifæri til að ljúka við þarfagreininguna áður en ákvörðun um að auglýsa stöðugildi væri tekin. Slíkt væri bæði eðlileg krafa og góð stjórnsýsla.  

Mikilvægi forvarnarstarfs

Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi leggur ríka áherslu á öflugar forvarnir á öllum æviskeiðum þar sem fagleg sjónarmið ráða för. Á komandi kjörtímabili vill flokkurinn auka tækifæri barna til tómstunda- og íþróttaiðkunar með hækkun tómstundastyrks í 75.000 kr. Einnig munum við efla heimaþjónustu og halda áfram að styðja af krafti við heilsueflingu eldri bæjarbúa. Mikilvæg skref voru tekin í því á yfirstandandi kjörtímabili svo sem með Janusarverkefninu sem farið hefur afar vel af stað. Þá munum við vinna með fagaðilum í að skapa sem bestan stuðning skóla og félagsstarfs við góða líðan, lífsstíl og heilsu allra barna á Nesinu. 

 

Ragnhildur Jónsdóttir

varabæjarfulltrúi og varaformaður skólanefndar

skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokks í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí nk.