Lífsgæði, ábyrgð og festa á Nesinu. Grein eftir Magnús Örn Guðmundsson sem skipar 2. sæti á lista XD á Nesinu.

Lífsgæði, ábyrgð og festa á Nesinu
Þegar litið er yfir farinn veg í rekstri Seltjarnarnesbæjar geta Sjálfstæðismenn verið stoltir. Ekki aðeins á Nesinu heldur um land allt. Seltjarnarnes er frábært dæmi um skynsamlegan rekstur bæjarfélags. Hér eru skattar og skuldir með því lægsta sem gerist. Álagning útsvars er t.d. 13,7% hér en 14,52% í Reykjavík, sem er raunar hámarksútsvar enda vinstrimenn við völd þar undir forystu Samfylkingarinnar. Þetta skiptir auðvitað miklu máli. Samt sem áður er þjónustustigið hér mikið mun hærra, og reyndar með því hæsta á landinu í öllum málaflokkum og ánægja íbúa eftir því.

Ómakleg gagnrýni
Í dag er sótt að okkur Sjálfstæðismönnum á Seltjarnarnesi úr ýmsum áttum. Óvæntum líka. Helsta gagnrýnin er hversu lengi flokkurinn hefur verið við völd. Það eru einkennileg rök þegar vel gengur. Einnig er gagnrýnt hversu þjónustustigið er hátt og lítill afgangur er af rekstri bæjarins, sem sveiflast eftir atvikum. En undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur tekist að bjóða íbúum Seltjarnarness úrvalsþjónustu með lágum sköttum og álögum og erum við stolt af því. Skuldahlutfallið er með því lægsta á landinu og sterkar stoðir eru í grunnrekstri bæjarins. Stækkun íþróttamiðstöðvar, sem Reykvíkingar kosta 2/3 hluta af, og bygging hjúkrunarheimilis, sem ríkið borgar 85% af auk alls rekstrarkostnaðar eru enn fremur hluti af gagnrýninni. Ef þetta eru helstu gagnrýnisefnin er ekki mikið sem bjátar á hjá okkur á Nesinu.

Vaxandi vinsældir
Fyrir síðustu kosningar ritaði ég grein um vinsældir Seltjarnarness hjá barnafjölskyldum. Ekki óraði mig þá fyrir hvað hefur síðan gerst. Svefnbærinn er bókstaflega að fyllast af barnafjölskyldum. Á sama tíma rituðu fulltrúar minnihlutans um að hér væri allt ómögulegt. Sem betur fer hlustuðu fáir. Þeir eru að minnsta kosti hér sjálfir ennþá. Hér er ekki ódýrt að festa kaup á húsnæði, enda eftirspurn úr öllum sveitarfélögum, ekki síst úr Reykjavík þar sem ríkir ófremdarástand í leiksskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum. Það eru gleðifregnir hve Seltjarnarnesbær er vinsæll og því ber að fagna. Til skemmri tíma útheimtir það fjárfestingu í innviðum en á móti koma nýir skattgreiðendur sem taka þátt í að viðhalda háu þjónustustigi á skynsamlegum kjörum.

Stefnan er skýr og metnaðarfull
Þrátt fyrir töluverða uppbyggingu ætlar Sjálfstæðisflokkurinn ekki að hækka skatta. Flokkurinn ætlar þvert á móti að nýta svigrúm til skattalækkana. Viðmiðunaraldur tómstundastyrkja verður lækkaður niður í fimm ára aldur úr sex. Nýr leikskóli mun rísa, enda Sólbrekka úr sér gengin. Allt stefnir í yfir 10% fjölgun barna á leikskólunum frá því í fyrra miðað við sama inntökualdur, 14 mánaða. Það er lægra en víðast hvar annars staðar. Með nýjum leiksskóla er stefnt á 12 mánaða inntökualdur. Öryggis og umferðarmál verða sett í forgang. Áhersla verður á eflingu Strætó og að ekki verði þrengt meir að einkabílnum en nú þegar er búið að gera. Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi hefur tekið skýra afstöðu varðandi Borgarlínuna sem er í dag óraunhæf hugmynd. Umhverfismál og vestursvæðin hafa ávallt verið í öndvegi hjá okkur og sérstök áhersla verður á að hlúa vel að eldri borgurum sem er hratt stækkandi hópur í samfélaginu.

Gerum lífið enn betra
Ég þekki engan Seltirning sem vill búa í öðru sveitarfélagi. Ástæðan fyrir því er einföld. Hér hefur okkur tekist að byggja upp svo eftirsóknarvert samfélag að önnur sveitarfélög líta hingað öfundaraugum. Þetta hefur tekið marga áratugi og allan þann tíma hefur bærinn verið undir öruggri forystu Sjálfstæðismanna. Í kosningunum 26. maí óska Sjálfstæðismenn eftir traustum meirihluta til að hér verði áfram eitt eftirsóknarverðasta bæjarfélag landsins. Við heitum því að gera enn betur – gera lífið enn betra. Tilraunastarfsemi í breytingastjórnun úr þekktri formúlu getur reynst bæjarbúum dýrkeypt. Kjósum áframhaldandi lífsgæði, ábyrgð og festu.

Magnús Örn Guðmundsson, viðskiptafræðingur, skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi