Magnús Örn Guðmundsson sækist eftir 1. sæti

Magnús Örn Guðmundsson sækist eftir að leiða lista Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi.

 

Magnús Örn Guðmundsson viðskiptafræðingur býður sig fram í oddvitasætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi sem fyrirhugað er í febrúar næstkomandi. Magnús Örn er forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs. Hann starfar sem forstöðumaður hjá sjóðastýringarfélaginu Stefni hf.
Magnús leggur sem fyrr áherslu á lága skatta, hagkvæman rekstur, skilvirka stjórnsýslu, hátt þjónustustig og forgangsröðun framkvæmda líkt og á þessu kjörtímabili. Seltjarnarnesbær hafi notið þeirra gæfu í gegnum árin að gera hlutina skynsamlega og vel í stað þess að framkvæma um efni fram. Magnús Örn leggur mikla áherslu á hagsmuni Seltirninga í samgöngumálum til og frá sveitarfélaginu.

Viðspyrna framundan

Á síðustu misserum hafa margvíslegar áskoranir blasað við Seltjarnarnesbæ líkt og öðrum sveitarfélögum, bæði í rekstri og fjárfestingum. Hækkun launa opinberra starfsmanna umfram almenn laun og hækkun lífeyrisskuldbindinga hafa verið afar krefjandi og heimsfaraldur þyngt róðurinn enn frekar. Vel hefur tekist að stýra sveitarfélaginu í gegnum þessar áskoranir og aukning skulda er hófleg en engin langtímalán voru tekin á síðasta ári. Raunar er Seltjarnarnesbær í öfundsverðri stöðu þegar kemur að skuldaviðmiði sveitarfélagsins, ekki síst þegar búið er að taka tillit til samninga ríkisins og Reykjavíkurborgar við bæinn. Skuldbindingar þessara aðila við bæinn nema samtals yfir 1.600 milljónum vegna bygginga mannvirkja á Seltjarnarnesi sem bærinn á og ríki og borg leigja þó margir kjósi að gleyma þeirri staðreynd. Það er yfir helmingur af langtímaskuldum bæjarins.

Nýtt hjúkrunarheimili, Seltjörn, hefur risið, viðbygging við íþróttahús var gerð í samstarfi við Reykjavíkurborg og Lækningaminjasafnið verður að Náttúruminjasafni í eigu ríkisins. Byrjað er á nýjum búsetukjarna fyrir fatlaða sem mun skapa hagræði og bæta þjónustu, og nýr leikskóli mun senn rísa.

Áskoranirnar munu halda áfram og afar mikilvægt er að sterkur og samstilltur hópur Sjálfstæðismanna haldi um stjórnartaumana á Nesinu eftir næstu kosningar og taki á rekstri bæjarins af festu. Framundan er uppbyggingarskeið en ný Gróttubyggð mun brátt rísa við Bygggarða. Gert er ráð fyrir töluverðri fjölgun íbúa og auknum skatttekjum án þess að fjárfesta þurfi í innviðum. Magnús vill lækka fasteignaskatt og lækka útsvar.

Með nýjum ungbarnaleikskóla og nýjum leikskóla mun bærinn færast nær markmiði sínu um leikskólavist frá 12 mánaða aldri. Grunnskólar bæjarins eru í fremstu röð og mikilvægt að gera skóla enn betri í samstarfi við skólastjórnendur, kennara og foreldra. Á Seltjarnarnesi er blómlegt íþrótta- og tómstundastarf í fremsta flokki og tryggja þarf að svo verði áfram með góða aðstöðu líkt og raunin hefur verið. Magnús leggur jafnframt áherslu á að þjónusta við elstu íbúa bæjarins sé líka með sem allra besta móti. Þannig verður Seltjarnarnes áfram eitt eftirsóttasta bæjarfélag landsins, fyrir unga sem aldna.