Nú veljum við öflugt fólk til að styrkja stöðu Sjálfstæðismanna

Góðir Seltirningar, á laugardaginn veljum við Sjálfstæðismenn okkar lista fyrir komandi kosningar.  Markmiðið er skýrt, og vinna góðan sigur í komandi kosningum þann 14. maí.

Við þurfum á öflugu fólki að halda, skapa fjölbreyttan lista með samhentu fólki til að hlúa að bænum okkar og styrkja stöðu Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi.

Ég vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar og býð mig fram í 3-4 sæti í prófkjörinu og til að verða öflugur liðsmaður í nýjum meirihluta Sjálfstæðismanna eftir kosningarnar.

Áherslur mína hef ég sett niður í fjóra flokka.

  1. Sterk fjárhagsstaða er forsenda framfara

Það hefur verið skýr stefna Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi að halda álögum á íbúa lágum og ég legg áherslu á að við lækkum útsvarið aftur í 13,7%.  Rekstur sveitarfélags snýst að miklu leiti um taumhald á útgjöldin, skýr markmið um rekstrarafgang og vel skilgreindar aðhaldskröfur. Ég tel mikilvægt að við náum betri tökum á rekstri bæjarins.

  1. Snyrtilegt umhverfi og fallegur bær

Seltjarnarnes er fallegur bær, en við getum gert betur. Mikilvægt er að fyrir liggi skýr áætlun um viðhald og endurnýjun gatna, stíga og bygginga. Við þurfum að hafa meiri metnað og gott auga fyrir snyrtilegu umhverfi og skapa skýran farveg fyrir ábendingar frá íbúum um bætt umhverfi.

  1. Fjölskylduvænt samfélag

Við eigum leik- og grunnskóla í fremstu röð og vel hefur tekist að skapa samfellu í stundatöflu skóla og íþrótta- og tómstundastarfs. Það hefur skapað aukin lífsgæði fyrir fjölskyldufólk á Seltjarnarnesi. Bæta þarf húsakost leikskólans með ábyrgum hætti og stefna að inntöku leikskólabarna við 12 mánaða aldur.

  1. Skýr forysta um framþróun bæjarins

Þrýsta þarf á greiðari umferð fyrir Seltirninga í gegnum borgina, leiða framþróun Eiðistorgs sem lifandi þjónustukjarna og vinna markvisst að umbótum á þjónustu bæjarins.  Þá þarf bærinn að kanna hug bæjarbúa reglulega til þjónustunnar og leggja ríka áherslu á persónulegt viðmót og opin samskipti.

Taktu þátt og hafðu áhrif

Ég vil hvetja Seltirninga til þátttöku í prófkjörinu og vonast eftir stuðningi við framboð mitt í 3-4 sæti.