Örn Viðar Skúlason sækist eftir 3. til 4. sæti

Örn Viðar Skúlason sækist eftir 3. til 4. sæti

 

Ég sækist eftir stuðningi við framboð mitt í 3. til 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar.

Sem formaður Sjálfstæðisfélags Seltirninga undanfarin tvö ár hef ég tekið þátt í störfum meirihlutans  og öðlast dýrmæta innsýn í störf bæjarstjórnar.  Ég sækist nú eftir því að nýta þekkingu mína og reynslu með beinum hætti sem bæjarfulltrúi og stuðla að frekari framþróun bæjarins.

Ég hef búið á Seltjarnarnesi í bráðum þrjá áratugi, er giftur og hef alið hér upp þrjá drengi sem notið hafa frábærrar þjónustu leikskóla, grunnskóla og íþrótta- og tómstundastarfs.  Ég er hagverkfræðingur að mennt og með meistarapróf í fjármálum fyrirtækja.  Ég hef víðtæka reynslu af rekstri og stjórnun fyrirtækja. Ég starfa í dag sem fjárfestingastjóri hjá Nýsköpunarsjóði og sit í stjórnum nokkurra sprotafyrirtækja.

Þó margt sé til fyrirmyndar á Seltjarnarnesi tel ég  að við getum gert enn betur. Fjármál bæjarins eru mér þar ofarlega í huga enda er ljóst að góð þjónusta verður að byggja á traustum fjárhagsgrunni.  Ég tel mikilvægt að markvisst sé unnið að því að bæta rekstur bæjarins og tryggja að reksturinn standi undir fjárfestingu og endurnýjun innviða á komandi árum.

Rekstur bæjarfélags snýst  um  að hafa taumhald á útgjöldum og afmarka rekstur hans innan þess tekjuramma sem sveitarfélagið býr við.  Ég hef skýra sýn á mikilvægi þess að sýna ábyrgð í rekstri, setja sér markmið um aðhald og að stilla álögum á bæjarbúa í hóf. Seltjarnarnes hefur alla burði til að vera hér framarlega í flokki og eftirsóttur staður til að búa á hér eftir sem hingað til.

Ég vil leggja meiri áherslu á snyrtilegt umhverfi á Seltjarnarnes og hafa auga fyrir litlu atriðunum, varðveita náttúruperluna á vestursvæðinu, viðhalda skólum í fremstu röð og öflugu tómstundastarfi. Þá vil ég bæta þjónustu og samskipti við íbúa með meiri áherslu stafrænar lausnir og nýsköpun.

Ég sækist eftir því að verða aðili að samhentum hópi fólks, sem ber hagsmuni Seltirninga fyrir brjósti.