Óskiljanlegar skuldir Seltjarnarnesbæjar?

Uppá síðkastið hefur nokkur umræða verið um skuldasöfnun Seltjarnarnesbæjar. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2019 skuldar bærinn um 5,1 milljarð króna. En hvaða skuldir eru þetta og hvaðan koma þær? Eru þessar skuldir óbærilegar og sjáum við ekki fram úr vandanum? Svarið við því er nei. Skuldaviðmið bæjarins í lok árs 2019 er langt undir mörkum, eða 61% en má vera hæst 150%. Skuldirnar eiga sér eðlilegar skýringar og eru ekki eftir gegndarlausan hallarekstur líkt og bæjarfulltrúi Viðreisnar, Karl Pétur Jónsson hefur haldið fram. Fyrir honum eru skuldirnar óskiljanlegar, sem er raunar óskiljanlegt. Skoðum þetta nánar.

Lífeyrisskuldbinding
Af áðurnefndum 5,1 milljarði nemur lífeyrisskuldbinding bæjarins um 1,5 milljarði. Um er að ræða uppsafnaða skuld í gegnum áratugi til greiðslu lífeyris starfsfólks á eftirlaunaaldri. Sögulega hefur þessi skuldbinding alltaf verið há í bókum bæjarins. Hana þarf að sjálfsögðu að uppfæra eftir reiknireglum og greiða af. Á síðasta ári nam greiðsla af lífeyrisskuldbindingunni um 62 milljónum króna og fór bærinn létt með það enda með heildartekjur uppá 4.716 milljónir króna árið 2019.

Skammtímaskuldir
Þessar skuldir koma til greiðslu innan árs og almenna reglan er að eiga skammtímakröfur á móti. Skammtímaskuldir bæjarins námu tæpum 800 milljónum í lok árs en á móti koma skammtímakröfur uppá tæpar 600 milljónir. Hlutfallið þarna á milli getur sveiflast mikið, t.d. eftir stöðu á innheimtukröfum bæjarins, sjóðstöðu og skuld við birgja.

Langtímaskuldir
Þá er það mál málanna, vaxtaberandi langtímaskuldir bæjarins. Langtímalán í rekstri sveitarfélaga og fyrirtækja mega ekki vera hærri en svo að tiltölulega viðráðanlegt sé að borga af þeim vexti og afborganir, nákvæmlega eins og húsnæðislán er fyrir heimili. Í lok árs 2019 námu langtímaskuldir bæjarins um 2.800 milljónum króna en ekki er ýkja langt síðan þessar skuldir voru nær engar. Árið 2017 urðu breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Þurftu ríki og sveitarfélög að borga tugi milljarða inní sjóði LSR og Brúar (lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga). Hlutur bæjarins var hvorki meira né minna en tæpar 650 milljónir króna. Þessa fjárhæð þurfti að borga strax (170m gjaldfært, 480m eignfært) og var tekið hagstætt lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga (LSS), með bestu mögulegu vöxtum. Þetta var flókið uppgjör og ég skil að þetta vefjist fyrir mörgum, jafnvel bæjarfulltrúum. Flestir sjá hins vegar að þetta tengist ekki daglegum rekstri bæjarins.

Hjúkrunarheimilið Seltjörn
En hér kemur að því sem er auðskiljanlegra og ég hélt lengi að allir bæjarfulltrúar væru meðvitaðir um. En það er augljóslega ekki tilfellið. Árið 2019 var tekið í notkun eitt vandaðasta og best búna hjúkrunarheimili landsins, Seltjörn. Bærinn á þetta fallega hús en ríkið annast rekstur þess, blessunarlega. Bærinn tók lán hjá LSS fyrir byggingunni ásamt því að nota ríkulegt framlag úr Minningarsjóði Sigurgeirs Einarssonar, stórkaupmanns. Hér má kannski skjóta inní til gamans að engin lán voru tekin fyrir fullkomnum sjúkrarúmum, en heiðurshjónin Guðmundur Ásgeirsson og Ólöf Guðfinnsdóttir gáfu þau. Góðu fréttirnar við skuldirnar af hjúkrunarheimilinu er að ríkið greiðir á endanum 85% af því og nemur krafa á ríkið yfir 1 milljarði króna í reikningum bæjarins, en sú tala er dregin frá í skuldaviðmiði skv. reglugerð 512/2012. Árlega greiðir ríkið stóran hluta af afborgunum og vöxtum lánsins. Þessi milljarðskrafa á ríkið gerir það að verkum að langtímaskuldirnar eru í raun 1.800 milljónir nettó, ekki 2.800 milljónir. Munar um minna.

Fimleikahús
Sama ár og Seltjörn var vígt, opnaði glæsilegt fimleikahús á Nesinu. Fyrir því var tekið lán, enn og aftur hjá LSS. Húsið kostaði yfir 700 milljónir. Á næstu 19 árum borgar Reykjavíkurborg yfir 600 milljónir í verðtryggðum leigugreiðslum af húsinu, sem duga vel fyrir vöxtum og afborgunum. Eftir 20 ár þarf að endurnýja samninginn á sömu kjörum en bærinn á bygginguna. Sem sagt, lánið sem bærinn tók fyrir húsinu sínu er nær allt greitt af Reykjavíkurborg! Hér er um að ræða einn hagstæðasta samning sem bærinn hefur gert.
Það má því með réttmætri einföldun halda því fram að bærinn þurfi að standa skil sjálfur á langtímalánum sem nema 2.800m – 1.000m (ríkið borgar) – 600m (Rvík borgar) = 1.200 milljónum (um 255 þús. á hvern íbúa). Er það mikið eftir að hafa greitt upp níðþunga lífeyrisskuld við Brú uppá 650 milljónir og eignast tvö glæsileg mannvirki? Mögulega, en það er ekki sama og að þurfa að borga 2.800 milljónir uppá sitt einsdæmi. Það væri sannarlega þyngri róður sem ekki hefði verið farið útí enda væru langtímaskuldirnar þannig tæpar 600þús á íbúa. Annað eins og miklu meira sést reyndar víða, og að sjálfsögðu í næsta nágrenni þar sem Samfylkingin og Viðreisn ráða ríkjum.

Uppsafnaði rekstrarhallinn er 150 milljónir frá árinu 2014
Það þarf eitursnjallan töframann til að sýna fram á að framangreindar langtímaskuldir bæjarins skýrist af hallarekstri. Bæjarfulltrúinn Karl Pétur er ekki sá töframaður. Hallarekstur undanfarinna fimm reikningsára er 323 milljónir króna (A+B hluta bæjarins). Af þeim eru 170 milljónir vegna sérstakrar gjaldfærslu af áðurnefndu Brúaruppgjöri. Restin skýrist mest af áherslum í skólamálum og mjög þungri félagsþjónustu síðustu misseri. Í fyrra var afgangur af rekstri bæjarins en gera þarf betur. En vel má vera að Karli Pétri hafi tekist að villa um fyrir einhverjum með ómálefnalegum málflutningi um lélegan rekstur bæjarins.

Sannleikurinn er sá að hver einasta króna af háum útsvarstekjum hefur farið í framúrskarandi þjónustu við bæjarbúa á öllum aldri og til þess hefur ekki þurft lán nema til skamms tíma til að brúa sveiflur sem alltaf verða. Önnur lán hafa farið í áratuga gamalt lífeyrisuppgjör og innviðauppbyggingu sem Sjálfstæðisflokkurinn er sannarlega stoltur af.

Magnús Örn Guðmundsson
Viðskiptafræðingur og formaður bæjarráðs