Ragnhildur sækist eftir 1. sæti

Ég gef kost á mér til að leiða lista Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi í sveitarstjórnarkosningunum í vor og óska eftir stuðningi í prófkjörinu sem fer fram 26. febrúar.

Ég legg áherslu á að álögur séu lágar á Nesinu og að þjónusta bæjarins sé framúrskarandi. Við þurfum að fara vel með skattfé og gæta að því að rekstur bæjarins sé sjálfbær og staða hans sé þannig að við ráðum við sveiflur vegna utanaðkomandi áfalla. Skólarnir á Seltjarnarnesi eiga að vera fyrsta flokks og bærinn á að nýta sér tæknina bæði til sparnaðar og bættrar þjónustu við íbúa.

Seltjarnarnesið á að vera grænn og fjölskylduvænn bær þar sem fólki á öllum aldri finnst gott að búa. Til þess þarf íþrótta- og æskulýðsstarf að blómstra og félagsstarf eldri borgara að vera líflegt og skemmtilegt. Það skiptir líka máli að hlúa að umhverfinu og gæta þess að það sé bæði snyrtilegt og fallegt. Okkur á að líða vel í heilbrigðu umhverfi í bæ sem við erum stolt af. Ég boða aukið gagnsæi í ákvarðanatöku og að unnið sé að bættri lýðheilsu, líðan og lífsgæðum bæjarbúa á öllum aldri.

Frá 2018 hef ég verið varabæjarfulltrúi, sinnt formennsku í skipulags- og umferðarnefnd, setið í skólanefnd og gætt hagsmuna Seltirninga í svæðisskipulagsnefnd Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þá sat ég í foreldraráði Leikskóla Seltjarnarness 2015-2017. Það hefur verið bæði lærdómsríkt og gefandi að vinna að bæjarmálunum á kjörtímabilinu og gefið mér góða innsýn í helstu málaflokka sem sveitarstjórnir fást við.

Ég er uppalin á Seltjarnarnesi og þykir hvergi betra að vera. Ég er með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík (1999), BSc (2003) og MSc í hagfræði (2005) frá Háskóla Íslands og með MSc í hagnýtri jákvæðri sálfræði frá Englandi (2019). Ég er gift Tryggva Þorgeirssyni, lækni og forstjóra Sidekick Health. Við eigum þrjú börn, Önnu Maríu (f. 2010), Evu Laufeyju (f. 2012) og Ara Tómas (f. 2014).

Ég hef víðtæka og fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu, hef unnið við rannsóknir og hagspár, efnahagsgreiningu og eignastýringu, kennslu, skrif og heilsueflingu. Ég hef einnig setið í stjórnum fyrirtækja og stofnana. Ég er skipulögð og drífandi, óhrædd við að ganga í málin og á auðvelt með að vinna með fólki.

Í störfum mínum sem varabæjarfulltrúi hef ég öðlast góða þekkingu á málefnum Seltjarnarness og margvísleg reynsla mín á öðrum vettvangi mun einnig gagnast í störfum mínum fyrir bæjarfélagið. Þessa reynslu mína býð ég fram, ásamt metnaði fyrir hönd bæjarins sem mér þykir mjög vænt um og vil fá tækifæri til þess að gera enn betri. Þess vegna óska ég eftir stuðningi í 1. sæti í prófkjörinu.