Sjálfstæðisflokkurinn fagnar 87 ára afmæli í dag

Flokkurinn var stofnaður 25. maí 1929.

Sjálfstæðisflokkurinn fagnar 87 ára afmæli í dag. Flokkurinn var stofnaður hinn 25. maí 1929 við samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti stjórnmálaflokkur landsins og eiga tugir þúsunda landsmanna aðild að honum.

Jón Þorláksson, verkfræðingur og síðar borgarstjóri í Reykjavík, var fyrsti formaður flokksins og gegndi embættinu til 1934.  Þá tók Ólafur Thors við en í janúar á síðasta ári hélt Sjálfstæðisflokkurinn minningarfund í tilefni af því að á gamlársdag 2014 var hálfrar aldar ártíð Ólafs.

Dr. Bjarni Benediktsson tók við formennsku árið 1961 og gegndi henni til 1970. Þá varð  Jóhann Hafstein formaður og gegndi því embætti til ársins 1973. Næstur Geir Hallgrímsson til 1983, Þorsteinn Pálsson til 1991, Davíð Oddsson til 2005 og Geir H. Haarde var formaður Sjálfstæðisflokksins frá 2005-2009. Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 29. mars 2009. Varaformaður flokksins er Ólöf Nordal og ritari hans er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Hér má lesa ágrip af sögu flokksins.