Styrking innviða ætti ávallt að vera í forgrunni

Nokkur orð um grunnþjónustu og leikskólamálin

Seltjarnarnesbær er framúrskarandi sveitarfélag. Bærinn er handhafi framkvæmdavalds, fer með staðbundna stjórnsýslu og gegnir mikilvægu lýðræðislegu hlutverki sem það stjórnvald sem er næst íbúunum. Staða sveitarfélaga hefur breyst mikið en hugmyndin er sú að það teljist til mannréttinda að fá að kjósa þá sem fara með stjórn sveitarfélagsins í lýðræðislegum kosningum og hafa þannig bein áhrif á sitt nærumhverfi.

Bænum ber líkt og öðrum sveitarfélögum skylda til að sinna lögbundinni lágmarksþjónustu. Slík lágmarksþjónusta er í daglegu tali kölluð grunnþjónusta. Margir vilja meina að sveitarfélagið eigi eingöngu að sinna slíkri grunnþjónustu og láta ólögbundin verkefni eða svokölluð gæluverkefni að mestu í friði og er það vel. Málið er samt ekki svo einfalt, því grunnþjónustu er skipt niður í tvo flokka, lögskyld verkefni og lögheimil verkefni og svo höfum við gæluverkefnin en oft gætir misskilnings um hvaða flokki verkefni tilheyrir. Þá telst þjónustustig lögbundinnar þjónustu, þ.e. gæði þjónustunnar, einnig til grunnþjónustu vegna þess að sveitarfélaginu er að vissu leyti skylt að viðhalda þjónustustigi sem hefð hefur skapast um að íbúum standi til boða þrátt fyrir að slíkt þjónustustig sé ekki lögbundið. Hækkun þjónustustigs kallar því ávallt á vandaða stjórnsýsluhætti og forsvaranlega beitingu opinberra valdheimilda.

Mikilvægt er að greina á milli lágmarksþjónustu og annarrar þjónustu sem sveitarfélagið veitir og er frjálst að sinna innan vissra marka. Ráðuneyti sveitarstjórnarmála gefur árlega út leiðbeinandi yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga, flokkuð eftir því hvort verkefni eru skyldubundin eða ekki. Svigrúm sveitarfélaga til að sinna gæluverkefnum er fremur vítt en matið er þó ekki að fullu háð geðþótta bæjarstjórnar. Svigrúmið endurspeglar þjóðfélagsaðstæður hverju sinni en mikilvægt er að ekki sé ráðist í gæluverkefni á kostnað grunnþjónustu. Styrking innviða ætti ávallt að vera í forgrunni svo bæta megi grunnþjónustu.

Verkefni sem teljast lögskyld og falla því undir grunnþjónustu eru félagsmál, húsnæðismál, fræðslu- og menningarmál, öryggis og löggæslumál, umhverfis- og skipulagsmál, dýramál, kosningar, samgöngumál, vatns- og fráveitumál, íþrótta- og æskulýðsmál, heilbrigðismál og nokkur önnur mál auk þess sem sveitarfélagi er skylt að sinna stjórnsýsluverkefnum svo sem álagningu og innheimtu opinberra gjalda, útboðsmálum o.s.frv. Þessu til viðbótar koma svo lögheimilu verkefnin sem eru almennar íbúðir, almenningssamgöngur, bann/takmörkun gæludýra- og húsdýrahalds, bygging félagsheimila, hafnir, héraðsskjalasöfn, hitaveitur, holræsismál, leigubifreiðar, leiklistarmál, leyfi til tóbakssölu, lögreglusamþykktir, náttúrustofur, rafmagnsveitur, rekstur dagdvala fyrir aldraða, stöðureitir og stöðubrot, tónlistarskólar og takmarkanir eða bann á umferð.

Forgangsröðun verkefna í þágu grunnþjónustu er eitt mikilvægasta verkefni sveitarfélaga. Á Seltjarnarnesi er nýr leikskóli ofarlega á þeim lista. Hraða þarf byggingu nýs leikskóla til að tryggja fyrirsjáanleika þegar kemur að inntöku barna og gera þarf leikskólann að samkeppnishæfum vinnustað. Í leikskóla Seltjarnarness er veitt framúrskarandi þjónusta en aðstöðuna þarf að bæta. Það var mikið gæfuspor þegar ákveðið var að hörfa frá byggingu fullbyggðs leikskóla sem verðlaunatillaga gerði ráð fyrir, enda ljóst að kostnaður við slíkt verkefni hefði farið úr hófi fram. Slík ákvarðanataka sýnir þrótt og skynsemi. Verkefnið fram undan er skýrt, byggja þarf svokallaðan fyrsta áfanga nýs leikskólahúsnæðis en því verkefni þarf að hraða og samhliða þarf að tryggja að starfsumhverfi starfsfólks leikskólans verði bætt og starfsfólkið áfram hvatt til náms. Það er því óskandi að Skólaþing verði sett á dagskrá sem fyrst svo bæjarbúar geti varpað fram sínum hugmyndum og haft áhrif á uppbygginguna á leikskólasvæðinu.

Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir

Lögmaður og frambjóðandi í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi.