Svana Helen Björnsdóttir sækist eftir 1. sæti

Kæru vinir og samherjar,

Seltjarnarnes er einstakt bæjarfélag með mikla framtíðarmöguleika ef vel verður á  málum haldið.

Á þessu vori óska ég eftir stuðningi ykkar í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins til þess að helga mig því verkefni að efla og bæta Seltjarnarnes. Ég hef búið hér í rúm þrjátíu ár og gjörþekki bæinn, bæjarmálin, félögin í bænum, skólana og þjónustuna alla.

Ég er verkfræðingur að mennt og  stofnaði mitt eigið nýsköpunarfyrirtæki STIKA og rak í þrjá áratugi. Síðustu tveimur árum hef ég varið til að ljúka doktorsprófi. Samhliða aðalstarfi hef ég alltaf gegnt forystustörfum í félagsmálum, nú síðast formennsku í Verkfræðingafélagi Íslands.

Ég er gift Sæmundi E. Þorsteinssyni verkfræðingi og lektor við Háskóla Íslands. Saman eigum við þrjá syni, Björn Orra, f. 1993, Sigurð Finnboga, f. 1996, og Þorstein, f. 1996.

Okkur hefur liðið dásamlega á Seltjarnarnesi og ég er þakklát öllu samfélaginu hér á Nesinu  fyrir þá traustu og góðu samfélagsumgjörð sem okkur er búin. Þetta góða samfélag á mikinn þátt í hamingju fjölskyldu minnar. Þannig vil ég að öðru fólki líði á Seltjarnarnesi, á hvaða aldri sem fólk er. Mig langar að endurgjalda allt það góða sem ég hef þegið á Seltjarnarnesi með því að bjóða fram krafta mína, reynslu og þekkingu í þjónustu fyrir samfélagið á Nesinu. Ég vil vinna í sátt við ykkur og með ykkur.

Fjölskylduvænt samfélag

Á Seltjarnarnesi hef ég átt þess kost að taka þátt í mjög fjölbreytilegu starfi barna og foreldra. Það hefur verið sérlega gefandi. Ég var formaður foreldrafélags leikskólans í nokkur ár og formaður foreldraráðs grunnskólans til margra ára. Sæmundur hefur einnig tekið þátt í foreldrastarfi á öllum stigum. Sem fjölskylda höfum við tekið þátt í íþróttastarfi Gróttu, farið á fótbolta- og handboltamót, bæði innan lands og til Svíþjóðar. Við höfum verið fararstjórar, liðsstjórar, útbúið mat, þvegið og þurrkað íþróttabúninga, svæft og staðið vaktir ásamt öðrum foreldrum í mótsferðum. Ég hef notið þess að tengjast einnig Tónlistarskólanum því allir synir okkar stunduðu þar tónlistarnám um margra ára skeið.

Þegar synir mínir komust á fermingaraldur mætti ég í allar messur með þeim og var í framhaldi beðin um að taka sæti í sóknarnefnd og ráðgefandi rekstrarnefnd kirkjunnar strax eftir hrun, ásamt tveimur öðrum traustum Seltirningum. Saman endurskipulögðum við rekstur Seltjarnarneskirkju þannig að tekist hefur að greiða hratt niður skuldir kirkjunnar sem urðu til vegna viðhaldsframkvæmda og lækkunar sóknargjalda. Í því verkefni hafa margir Seltirningar tekið höndum saman og lagst á eitt til að kirkjan geti verið sá samkomustaður fyrir alla íbúa sem sómi er að. Kennileiti Seltjarnarness er fallega kirkjubyggingin okkar. Ég hef verið varaformaður sóknarnefndar í nær 14 ár, sinnt þar margs konar sjálfboðastarfi og þjónustu og verið nátengd starfi eldri borgara.

Starf innan Sjálfstæðisflokksins

Ég hef starfað með Sjálfstæðisfélaginu á Seltjarnarnesi frá árinu 2006. Var áheyrnarfulltrúi foreldra í skólanefndinni um árabil og hef tekið virkan þátt í fundum og umræðum á vettvangi Sjálfstæðisfélagsins. Ég hef verið í fulltrúaráði flokksins um árabil og sat um tíma í utanríkismálanefnd hans. Þá hef ég sótt landsfundi Sjálfstæðisflokksins þegar tækifæri hefur gefist.

Helstu áherslumál mín

Seltjarnarnes er einstakur búsetustaður fyrir fólk á öllum aldri. Þótt margt sé þar til fyrirmyndar eru tækifæri til að bæta ýmislegt. Meðal þess sem ég legg áherslu á í framboði mínu er eftirfarandi:

  • Ég vil bæta þjónustu og íbúagæði þannig að ánægja verði meiri og mælist hæst meðal íslenskra sveitarfélaga. Ánægja íbúa hefur á síðust árum mælst minni en oft áður.
  • Tryggja rekstur og fjárhag bæjarfélagsins samhliða því að halda álögum á íbúa í lágmarki.
  • Sýna aðhald og hagkvæmni í öllum rekstri bæjarfélagsins.
  • Bæta ásýnd bæjarins með hreinsun, þrifum og fegrun gatna og opinna svæða.
  • Standa vörð um náttúru og fuglalíf. Lagfæra og snyrta göngu- og hjólaleiðir.
  • Kortleggja eignir bæjarins og gera áætlun um viðhald.
  • Skoða hvort og hvernig unnt er að lífga Eiðistorg.
  • Koma á samstarfi við verslunareigendur á Eiðistorgi um útihreinsun, þrif og endurnýjun á gróðri, einnig um viðhald bílastæða og göngustíga í nágrenni verslunarmiðstöðvarinnar – þannig að þessum verkefnum verði sinnt stöðugt og reglubundið.
  • Endurmat á fyrirhuguðum framkvæmdum, kostnaðaráætlunum, fjármögnun og útgjöldum.
  • Mat á gæðum leikskóla- og grunnskólastarfs, ánægju barna, foreldra, kennara og annars starfsfólks.
  • Efla félagsstarf barna og unglinga í Selinu.
  • Endurvekja foreldrarölt, útieftirlit foreldra – til aðhalds og sem forvörn gegn eftirlitslausri drykkju og vímuefnanotkun ungmenna og til bættra samskipta þeirra og forsjáraðila.
  • Styrkja samstarf aðila sem starfa með og þjóna íbúum á öllum aldri, s.s. samstarf skóla, íþróttafélagsins Gróttu, kirkjunnar og annarra félagasamtaka sem starfa í bænum.
  • Efla menningu og listir til styrktar bæjarbrag.
  • Í öllum rekstri sé tekið mið af sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og markmiðum Íslands um kolefnishlutleysi.
  • Auka frumkvæði í samskiptum og samstarf við nágrannasveitarfélögin og hafa meiri áhrif á ákvarðanatöku, t.d. vegna samgangna til og frá Seltjarnarnesi. Einnig þarf að huga að samstarfi um öruggar og hagkvæmar leiðir í sorpmálum til framtíðar litið.
  • Leitað verði leiða til að bæta og fegra götur og halda umferðarhraða niðri með öðrum leiðum en hraðahindrunum sem skemma ökutæki, bæði dekk og dempara.
  • Eyða þarf óvissu vegna uppbyggingar á Bygggarðasvæði, m.a. vegna leikskóla og annarra innviða.

Rekstur, stjórnun og annað félagsstarf

Ég var framkvæmdastjóri og rak eigið hugbúnaðar- og verkfræðifyrirtæki, Stika ehf., í 27 ár til ársins 2019. Stiki sameinaðist þá fyrirtækinu Klöppum grænum lausnum hf. og var ég þar framkvæmdastjóri til 2020. Þá færði ég mig til Verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík og hef unnið þar mestmegnis að vísindastörfum síðan. Nú er ég á síðustu metrum við að ljúka doktorsrannsókn á aðferðafræði áhættugreiningar við hönnun og í margs konar rekstri.

Á starfsferli mínum hef ég einnig setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, samtaka og stofnana og hef víðtæka reynslu af stjórnun og rekstri fyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis. Ég hef meðal annars verið formaður Samtaka iðnaðarins, stjórnarmaður í Samtökum atvinnulífsins, í framkvæmdastjórn SA, formaður Samtaka sprotafyrirtækja, stjórnarformaður Men and Mice, í stjórn Landsnets, í háskólaráði HR, í stjórn Persónuverndar og í stjórn Haga.

Nú er ég m.a. formaður Verkfræðingafélags Íslands, varaformaður SL lífeyrissjóðs, í stjórn Vinnudeilusjóðs SA og í stjórn Samtaka sparifjáreigenda.

Loks má nefna að ég hef unnið ýmis sjálfboðaliðastörf fyrir þjóðkirkjuna, verið í kristilegu æskulýðsstarfi frá unga aldri og setið á kirkjuþingi í 12 ár. Ég hef m.a. verið forstöðukona í Vindáshlíð og átt þess kost að taka þar á móti kátum stelpum af Seltjarnarnesi.

Menntun

Ég stundaði nám í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands og við Technische Universität Darmstadt í Þýskalandi og útskrifaðist með meistaragráðu í raforkuverkfræði árið 1987. Um þessar mundir er ég að ljúka doktorsnámi við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Auk þess hef ég stundað nám á vegum ITM Worldwide í alþjóðlegum viðskiptum og markaðsfræðum, m.a. í Chalmers í Svíþjóð og INSEAD í Frakklandi. Ég lagði stund á framhaldsnám í rekstrarverkfræði við vélaverkfræðideild Háskóla Íslands í einn vetur og er vottaður úttektarmaður stjórnkerfa sem byggja á ISO-stöðlum.

Að lokum

Ég vil að fleira fólk finni löngun til að leggja sitt af mörkum til samfélags okkar á Seltjarnarnesi – allt eftir áhuga, getu og aðstæðum hjá hverjum og einum. Með virkri þátttöku í nærsamfélagi okkar kynnumst við innbyrðis, skiljum, lærum og njótum betur – saman.

Ég vil að Seltjarnarnes haldi áfram að eflast og dafna og verði fyrirmynd um gott mannlíf á Íslandi.

Nánari upplýsingar um mig má finna á Facebook og á ýmsum vefsíðum Internetsins.

Hafa má samband við mig í gegnum tölvupóst: svanahelen@gmail.com, eða í síma: 899 9200.