Aðlögun og sóknarfæri eftir Covid19

Undir stjórn sjálfstæðismanna hefur Seltjarnarnesbær boðið íbúum sínum upp á lægstu útsvarsprósentu sem þekkist í landinu, 13,7%, lægstu fasteignagjöldin og hæstu tómstundastyrkina 50.000 kr. fyrir aldurinn 5-18 ára.  Halli var á rekstri bæjarins á síðasta ári, en við erum bjartsýn á að fjárhagurinn muni vænkast á næstu missurum, þegar jafnvægi hefur náðst milli gjalda og útsvarstekna vegna Covid19. Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2020 var lagður fram af bæjarstjóra 15. apríl sl. til fyrri umræðu. Fram kom í þeim reikningi að hann gefi glögga mynd af rekstrinum, en halli á rekstri bæjarins vegna ársins 2020 er vegna uppreiknings á lífeyrisskuldbindingum sem færð eru sem gjöld að fjárhæð 210 mkr. og vegna samþykktar bæjarstjórnar til að mæta áhrifum vegna Covid19 að fjárhæð 158 mkr. sem einnig er fært til gjalda. Í þannig árferði eins og við höfum búið við vegna Covid19 er nauðsynlegt að gera greinarmun á kostnaði sem til fellur vegna Covid19, lífeyrisskuldbindinga og svo almenns reksturs bæjarfélagsins.

Rekstur bæjarfélagsins er traustur, starfsfólk bæjarins hefur brugðist við og aðstoðað við stefnumótandi ákvarðanir um hvernig snúa megi við þeirri þróun að gjöld fari ekki fram úr tekjum á ársgrundvelli og ber ársreikningurinn glögga mynd af því að það hefur tekist. Haldið verður áfram að spyrja þeirra spurninga hvernig hægt sé að byggja undir þá þjónustu sem bærinn veitir án þess að auka útgjöld og þannig að þjónustan samræmist tekjuflæðinu.

Miklar framkvæmdir undanfarin ár

Á þessu kjörtímabili hafa verið miklar framkvæmdir hjá bænum. Framkvæmt hefur verið fyrir hátt í 4 milljarða.

Hátt þjónustustig metnaðarmál

Meirihlutinn á Seltjarnarnesi hefur ávallt forgangsraðað í þágu velferðarmála og skólamála. Við höfum metnað fyrir framúrskarandi þjónustu, það er enginn slaki í kerfinu hjá okkur, hátt þjónustustig útskýrir það. Við þurfum á sama tíma og við erum með lægstu útsvarsálagningu að skoða hvernig hægt sé að nýta enn betur tekjur bæjarins.

Blikur eru á lofti og enginn getur spáð fyrir hvenær Covid19 faraldurinn hættir að hafa áhrif á efnahag landsins. Enginn vafi er á því að rekstur sveitarfélaga verður erfiðari í ár en í fyrra. Atvinnuleysi hefur aukist verulega og á Seltjarnarnesi er það núna 9%.

Ný byggð við Bygggarða

Ég lít bjartsýn fram á veginn. Bærinn er með eitt lægsta skuldaviðmið landsins og hefur því svigrúm til þess að laga sig að nýjum aðstæðum. Hann hefur einnig mikil sóknarfæri. Uppbygging á nýju íbúðasvæði við Bygggarða er að hefjast og fjölgun skattgreiðenda því framundan. JÁVERK hefur tekið yfir verkefnið af Gróttubyggð ehf. og mun fljótlega kynna uppbyggingu svæðisins. Bæjaryfirvöld hafa nú tækifæri til að skoða alla innviði bæjarfélagsins með það að markmiði að veita áfram góða og öfluga þjónustu en auka ekki útgjöld bæjarins umfram tekjustofna þess.

Ánægja og athafnasemi

Seltjarnarnesbær er fjölmennasti vinnustaðurinn á Seltjarnarnesi, en þar starfa rúmlega 320 manns. Starfsemin er m.a. grunnskóli, frístund, leikskóli, tónlistarskóli, íþróttamiðstöð, sundlaug, félagsmiðstöð, félagsþjónusta, bókasafn, þjónustumiðstöð og bæjarskrifstofur. Góða rekstrarniðurstöðu á Covid19 tímum ber að þakka starfsmönnum bæjarins, þar sem  áherslan er á skilvirka stjórnun og öfluga þjónustu við íbúa.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri.