Draumurinn um hærri skatta

Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir næsta ár var samþykkt 9. desember síðastliðinn. Rekstrarniðurstaða er áætluð neikvæð um 136 milljónir. Áhersla er lögð á að verja grunnþjónustu við bæjarbúa án þess að íþyngja þeim með auknum álögum. Sem fyrr eru fræðslumál og félagsþjónusta lang fyrirferðamest og nema um 75% af tekjum bæjarins. Af augljósum ástæðum er áætluðum útsvarstekjum stillt í hóf í miklu atvinnuleysi en vonir standa þó til að bærinn, rétt eins og efnahagslífið, geti náð sér hratt á skrið þegar viðspyrnan hefst á næsta ári.

Þrengingar alls staðar

Eins og við var að búast hefur Corona veiran leikið efnahagslífið grátt og þar með opinberan rekstur sem er auðvitað bein afleiðing þó mörgum finnist erfitt að skilja það. Mörg hundruð milljarða króna hallarekstur og skuldasöfnun blasir við ríkissjóði og mörg sveitarfélög eru komin í afar þrönga stöðu. Fjöldi heimila og fyrirtækja eru í sárum eftir efnahagslegt bylmingshögg, enda skyndilegt tekjufall og atvinnuleysi án fordæma. Sveitarfélögin fimm í Kraganum hafa birt fjárhagsáætlanir sem eru samtals 3 milljarðar í mínus. Auk þess gerir Reykjavíkurborg ráð fyrir tæpum þriggja milljarða halla af samstæðu og 11 milljarða krónu halla af A hluta. Í Reykjavík er útsvar í hámarki hjá Samfylkingu og Viðreisn, 14,52% og er það líklega augljósasta dæmið um að rekstur sveitarfélaga snýst ekki um hámarksskattheimtu.

Töfralausn minnihlutans verður ekki jólagjöfin í ár

Við umræðu um fjárhagsáætlun í fyrra lagði minnihluti Samfylkingar og Viðreisnar á Seltjarnarnesi tillögu um hækkun útsvars úr 13,7% í 14,48%. Í ár bókaði svo Samfylkingin að „eðlilegt“ sé að hækka skatta sem þessu nemur í ljósi ástandsins!

Áskoranir í rekstri bæjarins snúast ekki um útsvarstekjur. Í nýútkominni Árbók sveitarfélaga sést að í fyrra greiddu Seltirningar 4% hærra útsvar á mann en Kópavogsbúar, liðlega 9% hærra en Hafnfirðingar og tæp 12% hærra en Mosfellingar. Enn fremur greiddum við 6,6% hærra útsvar á mann en Reykvíkingar þó þar sé álagningarstuðull í hámarki. Nú hafa laun hækkað um rúmlega 7% á síðastliðnum 12 mánuðum. Hver Seltirningur greiddi að meðaltali 734 þúsund kr. í útsvar á síðasta ári og má því gera ráð fyrir að sú tala verði komin í 785 þúsund í lok þess árs vegna mikilla launahækkana. Sambýlisfólk greiðir þá 1.570.000 krónur í útsvar á ári.

Hugmyndin gengur sem sagt út á að sambýlisfólk á Seltjarnarnesi borgi um 90.000 krónur meira í útsvar á næsta ári. Það er einkennileg nálgun í mesta samdrætti lýðveldissögunnar og með hreinum ólíkindum að slík hugmynd hafi verið lögð fram, og líklega án fordæma.

Seltjarnarnesbær stendur sterkum fótum

Þegar Corona kreppan skall á stóðum við Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn í miðjum hagræðingaraðgerðum til að bæta reksturinn og ná vopnum okkar eftir þungt uppgjör við lífeyrissjóðinn Brú, áherslna í skólamálum og aukins þunga í félagsþjónustu. Aukinheldur, og það sem skiptir meira máli, var skuldastaða bæjarins með því besta sem þekkist. Hún er það enn. Villandi málflutningur minnihlutans um óviðráðanlegar skuldir vegna hjúkrunarheimilisins og íþróttahúss standast ekki skoðun enda greiðslubyrðin af mannvirkjunum mest á ríki og Reykjavíkurborg. Bærinn er því í aðstöðu til að verjast vel þeim áföllum sem nú dynja yfir og nýtur góðs af þeim aðgerðum sem þegar hefur verið farið í. Það er full ástæða til að vera bjartsýn enda bærinn í öfundsverði stöðu til að sækja enn frekar fram og skara fram úr í þjónustu við bæjarbúa.

Jólakveðja,

Magnús Örn Guðmundsson

Forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs