Leikskólamál á Nesinu

Sigrún Edda Jónsdóttir, formaður skólanefndar Seltjarnarness:

Nokkur umræða hefur verið um leikskólamál á Nesinu í haust eins og gjarnan vill verða þegar foreldrar bíða þess að börnin komist inn á haustin og pressan mikil.  Ánægjulegt er að sjá fjölgun barna í  yngsta aldurshópnum á Seltjarnarnesi en nú eru samtals 241 barn í leikskóla á Seltjarnarnesi sem dreifast í 5 leikskólabyggingar á 13 deildir.  225 börn eru í Leikskóla Seltjarnarness og 16 verða í nýjum ungbarnaleikskóla sem settur var á laggirnar sem sjálfstæð eining.  Að auki eru um 40 börn í einkareknum leikskólum á höfuðborgarsvæðinu en það hefur verið valkostur fyrir foreldra að hafa börn í einkareknum leikskólum. Í heild er því fjöldi leikskólabarna um 280.  Við höfum náð að bregðast við fjölgun barna með opnun nýrra deilda eftir þörfum  og mætt því markmiði að börn komist inn á því ári sem þau verða tveggja ára en yngstu börnin  við inntöku eru 14 mánaða. Stærð leikskólans er orðin mikil og því ágætt að létta á álaginu með nýjum ungbarnaleikskóla sem hefur vakið mikla ánægju.  Það sem helst tafði inntöku barna í haust var ráðning starfsfólks til leikskólans bæði vegna veikinda og svo vegna námsmanna sem skelltu sér í nám í haust.  Þakka má góðu framtaki starfandi leikskólastjóra hve vel hefur tekist til við mönnun en skortur á starfsfólki og erfiðleikar við ráðningar eru ekki bundnir við Seltjarnarnes heldur sama staðan á öllu höfuðborgarsvæðinu. Lítil nýliðun er í stéttinni og því er það fagnaðarefni hversu margir starfsmenn hjá okkur hafa þegið boð um nám í leikskólafræðum samhliða starfi sínu í Leikskóla Seltjarnarness.

Mér finnst mikilvægt að því sé haldið á lofti hversu gott innra starf leikskólans er og það má ekki líða fyrir umræðuna um plássleysi.  Við höfum hátt hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara sem skilar sér í  faglegu starfi og góðum hópi starfsmanna sem vinnur störf sín af metnaði.  Það gerist vart að vísa þurfi  börnum frá leikskóla vegna manneklu þó það hafi gerst á einni deild í einn dag í haust.  Tölum því vel um leikskólana okkar, starfið þar og starfsfólkið sem þar vinnur af alúð.

Þörfin fyrir nýjan leikskóla er þó orðin brýn en tafir hafa verið á því að hægt hafi verið að hefja það verkefni meðal annars vegna covid19 og aukinna útgjalda m.a. af þeim sökum.  Nú er ekkert því til fyrirstöðu að hefjast handa við byggingu enda hefur deiliskipulag nýlega verið samþykkt fyrir nýjan leikskóla. Ákveðið hefur verið að byrja  á fyrsta áfanganum eins og tillagan gerir ráð fyrir en hægt er að skipta byggingaráformum í nokkur skref.  Ljóst er þó að kostnaður við fullbyggðan leikskóla sem verðlaunatillaga gerði ráð fyrir er ekki raunhæfur kostur eins og er fyrir bæjarfélagið og því ljóst að taka verður byggingu nýs leikskóla í minni skrefum.  Raunhæfur kostur er að byrja á fyrsta áfanganum á horninu á Suðurströnd/Nesvegi, á 2 hæðum, sem hægt verður að tengja við Mánabrekku og útisvæði núverandi leikskóla.  Við höfum gert úttekt á húsnæði Sólbrekku og Mánabrekku og ljóst að þau hús eru í góðu ástandi og minni háttar lagfæringar sem þarf að gera á þeim til að þau séu í  eins góðu ásigkomulagi  og hægt er hafa þau. Farið verður í þær lagfæringar næsta sumar.  Teiknivinna fyrir fyrsta áfanga að nýjum leikskóla fer af stað strax á nýju ári en gert er ráð fyrir að kynna hugmyndir að fyrirkomulaginu á Skólaþingi um nýja menntastefnu og fræðslumál sem fyrirhugað er að halda 5. febrúar 2022 en þar geta bæjarbúar lagt inn sínar hugmyndir og vangaveltur.

Sigrún Edda Jónsdóttir

Formaður skólanefndar Seltjarnarness