Prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi verður 26. febrúar 2022.

Á fundi fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna á Seltjarnarnesi þann 16. desember sl. var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að halda prófkjör.  Prófkjörið fer fram laugardaginn 26. febrúar 2022.  Framboðsfrestur fyrir þátttöku í framboðinu er til 17. janúar 2022 kl. 20:00.  Nánari útfærsla verður skv. reglum Sjálfstæðisflokksins og ákvörðunum kjörnefndar.  Þriggja manna kjörnefnd var kosin á fundinum en hana skipa þau Ingimar Sigurðsson, Petrea Jónsdóttir og Kristján Hilmir Baldursson.

Á fundinum voru líflegar umræður um þá ákvörðun að hækka álögur á bæjarbúa.

Magnús Örn Guðmundsson forseti bæjarstjórnar fór yfir stöðu fjármála og sagði hana sterka, skuldahlutfall lágt og bjarta tíma fram undan.  Þá ítrekaði Magnús Örn ætlun sína til að taka þátt í prófkjörinu og vilja sinn til að leiða lista flokksins í næstu kosningum.  Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri fór sömuleiðis yfir sterka fjárhagsstöðu bæjarins og sagði áætlað að tekjur bæjarins hækki um 250 m.kr. með tilkomu Gróttubyggðar sem rísa mun á árunum 2022 og 2023, án þess að til komi mikil útgjöld vegna innviða. Ásgerður hvatti félaga í flokknum til að bjóða sig fram í prófkjöri flokksins í febrúar.  Óli Björn Kárason þingsflokksaformaður Sjálfstæðisflokksins og Seltirningur minnti Sjálfstæðismenn á mikilvægi flokksins á Seltjarnarnesi og þá staðreynd að flokkurinn hefur haft forystu um að byggja upp hið eftirsótta samfélag á Seltjarnarnesi.

Gestur fundarins var Halldór Blöndal fyrrverandi ráðherra og formaður eldri Sjálfstæðismanna.  Hann var boðinn velkominn á Seltjarnarnes, en hann er nýfluttur í bæinn.  Halldór þakkaði hlý orð og hvatti Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi til dáða í komandi kosningum.