Seltirningar, til hamingju með endurgreiðsluna frá skattinum

Þann 1. júní njóta Seltirningar þeirrar sérstöðu að fá endurgreiðslu frá skattinum. Hér er ekki um neina smá aura að ræða, því um það bil 181 milljónir króna eru þá lagðar inn á bankareikninga Seltirninga. En hvernig stendur á þessari endurgreiðslu til Seltirninga ár eftir ár?

Í stuttu máli er það þannig að fyrirtækjum og stofnunum ber að draga tekjuskatt frá launatekjum starfsmanna og skila honum í ríkissjóð.  Þetta þekkjum við.  Þessar skattgreiðslur fara að mestu leyti til ríkisins, en hluti þeirra fer einnig til sveitarfélaga í formi útsvars. Við útreikning á þeim sköttum sem dregnir eru af launum okkar um hver mánaðamót má ekki taka tillit til útsvarsprósentu sveitarfélaga og því er dregið sama hlutfallið af öllum landsmönnum, miðað við hæsta leyfilega útsvar sveitarfélaga.

Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga, en sveitarfélögin hafa ákveðið svigrúm til að ákveða hversu hátt útsvar þau leggja á íbúa sína. Lögum samkvæmt verður útsvarið að vera á bilinu 12,44%-14,52%. Flest sveitarfélög landsins eru með útsvarsprósentu sína í lögbundnu hámarki á meðan útsvarið á Seltjarnanesi er með því lægsta sem þekkist eða 13,7%.

Það er þessi munur sem skilar sér inn á bankareikninga Seltirninga þann 1. júní og er eins og áður segir umtalsverð upphæð.  Nágrannar okkar í Reykjavík fá til dæmis ekki slíka endurgreiðslu, enda er  Reykjavík undir forystu Samfylkingar og Viðreisnar með útsvarið í hámarki eða 14,52%.

Það hefur verið skýr stefna Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi að hafa álögur á íbúa sem lægstar ásamt því að sýna ráðdeild í rekstri. Seltirningar búa því við eina lægstu útsvarsprósentu sem þekkist í landinu og hvað lægstu fasteignagjöldin. Engu að síður njóta fjölskyldur á Seltjarnarnesi einna hæstu tómstundastyrkja.

Með ákveðinni einföldun gætu Seltirningar spurt sjálfa sig:  „Hvað ætti ég að gera við peningana sem Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi tryggði mér?“ Ég er viss um að Seltirningar nýta þessa sendingu vel, en sjálfur ætla ég að nýta mína endurgreiðslu til ferðalaga innanlands.

Ég segi því bara takk fyrir mig.

 

Örn Viðar Skúlason,

formaður Sjálfstæðisfélags Seltirninga