Það eru mikil lífsgæði að búa á Seltjarnarnesi

Það er stórfengleg upplifun að ganga um Seltjarnarnes á björtum vetrardegi eins og við okkur blasti nú í lok ársins 2020.  Sólarljósið að berjast fyrir tilveru sinni sem skapar einstaka litasamsetningu við sjóndeildarhringinn.  Við okkur blasir Keilir á aðra hönd og svo Snæfellsjökull, Esjan, Hengillinn og Bláfjöllin. Nú svo er það fjaran, himinninn sem speglast í sjónum við Seltjörn, golfvöllurinn í Suðurnesi, Bakkatjörn og fuglalífið við Gróttu svo fátt eitt sé nefnt. Hið friðsæla mannlíf, sem við erum svo lánsöm að njóta, toppar þetta endurnærandi umhverfi okkar.  Það eru vissulega mikil lífsgæði að geta reimað á sig skóna og komist í svo mikla snertingu við náttúruna í einu vetfangi.

En það er ekki aðeins  náttúran sem er heillandi við Seltjarnarnesið. Þjónusta bæjarins snertir jú okkur öll í daglegu lífi og á þeim vettvangi er „útsýnið“ ekki síður einstakt. Fræðslumálin með mjög öflugum grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla þar sem faglegur metnaður og leikgleði skín í hverju horni.  Blómlegt íþrótta- og tómstundastarf með öflugu starfi Gróttu, samfellu í æfingatöflu við stundaskrá leik- og grunnskólans og víðtækri þátttöku barna og ungmenna. Þá er félagsþjónusta bæjarins til fyrirmyndar.  Á Seltjarnarnesi er hugguleg sundlaug með fullkominni líkamsrækt, flottur golfvöllur, heilsugæsla og svo ýmiss konar verslun og þjónusta. Sannarlega öflug og góð þjónusta.

Til viðbótar við ofangreinda dásemd, býður Seltjarnarnes svo íbúum sínum upp á eina lægstu útsvarsprósentu sem þekkist í landinu, hvað lægstu fasteignagjöldin og hvað hæstu tómstundastyrkina.  Fjárhagur bæjarins er traustur og hreinar skuldir á íbúa lágar.  Þó svo að Covid faraldurinn hafi neikvæð áhrif á rekstur bæjarins árin 2020 og 2021 er undirstaðan sterk.  Það eru því góðar líkur á því að rekstur bæjarins geti fljótt komist á þann stað að skila viðunandi afgangi og standa undir frekari uppbyggingu á innviðum bæjarins og lækka jafnvel enn frekar álögur á bæjarbúa.

Á næstu vikum og mánuðum ætlum við hjá Sjálfstæðisflokknum á Seltjarnarnesi að leggja víðtækt mat á árangur flokksins á þessu kjörtímabili og ræða með hvaða hætti við sjáum fyrir okkur að efla bæinn á komandi árum.  Skoðun þessi mun bæði fara fram á vinnufundum meirihlutans en einnig verður blásið til opinna íbúafunda um málefni bæjarins og kallað til sérstakra funda Sjálfstæðismanna um áherslur komandi ára.  Markmið þessarar vinnu eru skýr:  Að efla samstöðu Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi, móta framsýna stefnu íbúum til hagsbóta og leita leiða til að treysta fjármál bæjarins enn frekar í sessi.

 

Gleðilegt nýtt ár og megi nýtt ár færa þér og þínum hamingju og góða heilsu.

 

Örn Viðar Skúlason

formaður Sjálfstæðisfélags Seltirninga