Varnarsigur og viðspyrna

Rekstrarniðurstaða Seltjarnarnesbæjar fyrir síðasta ár kann að hljóma illa en halli af rekstri bæjarins nam um 230 milljónum króna. Þetta eru vissulega vonbrigði. En ekki er allt sem sýnist. Þar kemur einkum tvennt til. Í fyrsta lagi þurfti bærinn að gjaldfæra hækkun á lífeyrisskuldbindingu uppá 226 milljónir króna. Þessi fjárhæð hefur ekki áhrif á sjóðstreymi bæjarins og er reiknuð árlega af tryggingastærðfræðingi. Í öðru lagi tók meirihluti Sjálfstæðismanna ákvörðun um að tryggja grunnþjónustu sem allra best vegna þeirra afleiðinga sem Covid-19 faraldurinn hafði í för með sér. Sá kostnaður og tekjutap nema um 160 milljónum króna í reikningum bæjarins. Í ljósi þessa er rekstrarniðurstaðan ásættanleg, ekki síst þar sem grunnrekstur bæjarins er kominn á réttan kjöl.

Afleiðingar farsóttarinnar eru augljósar í ársreikningnum

Það kann að hljóma sem afsökun að skella skuldinni á Covid-19. Bæjarfélögum hefur farist það útspil misjafnlega úr hendi. Eins og oft áður eru slæmu fordæmin nærtæk. En í hverju felst aukinn kostnaður og tapaðar tekjur bæjarins? Stærstu liðirnir voru lokun sundlaugar (38 milljónir), aukaráðningar ungmenna í sumarstörf (28 milljónir), viðbótarmönnun í félagsþjónustu (22 milljónir), niðurfelling leikskóla- og frístundargjalda (14 milljónir) og kostnaður tengdur þrifum, mötuneytum og auka innlitum til eldri borgara (13 milljónir). Ofan á þetta lækkaði Jöfnunarsjóður framlög sín til bæjarins vegna tekjuskerðingar sjóðsins vegna Covid-19 um 42 milljónir króna. Samantekið eru nettóáhrif af þessum liðum og nokkrum smærri um 160 milljónir króna eins og áður sagði. Er það raunverulega þetta sem minnihlutinn kallar sorglega og óábyrga rekstraniðurstöðu? Hvað er það nákvæmlega sem þau hefðu viljað taka út af ofangreindu. Sumarstörfin? Aukavaktir í félagsþjónustu eða innlit til eldri borgara? Hafa opið í sundlauginni þó það væri bannað skv. reglugerð eða rukka gjöld fyrir lokaðan leikskóla?

Staðreyndirnar um grunnreksturinn

Við lestur ársreikningsins blasir hins vegar það augljósa við. Í það minnsta ef fólk leiðir hjá sér æðibunugang og upphlaup minnihlutans sem málar skrattann á vegginn útaf bókhaldslegum uppreikningi á lífeyrisskuld uppá 226 milljónir sem er reiknuð stærð og hefur ekkert með reksturinn á síðasta ári að gera. Skatttekjur hækkuðu um 4,4%. Laun, langstærsti útgjaldaliður bæjarins (57% af tekjum) hækkuðu um 3,9%. Og annar rekstrarkostnaður hækkaði um einungis 2,7%. Hvað blasir við úr slíku reikningsdæmi? Grunnreksturinn er í góðu jafnvægi. Veltufé frá rekstri er jákvætt um 253 milljónir en sú stærð sýnir þá fjármunamyndun sem á sér stað í rekstri bæjarsins. Handbært fé frá rekstri er á sama tíma 328 milljónir en það segir til um bolmagn bæjarins til að borga af lánum og ráðast í fjárfestingar. Nettófjárfestingar bæjarins námu um 260 milljónum króna og engin ný langtímalán voru tekin. Þetta er nú öll óreiðan! Og hver eru viðbrögð minnihlutans? Að fara auðveldu leiðina þegar gefur á bátinn og stinga uppá hækkun skatta og auknum lántökum. Aftur eru fordæmin nærtæk í nágrenninu og þau ber að varast. Reksturinn er hvorki lélegur né ósjálfbær og alls ekki sorglegur eins og heyrst hefur frá minnihlutanum. Sá málflutningur stenst ekki skoðun og er óásættanlegur. Vert er að minnast þess að á árinu 2019 var afgangur af rekstri bæjarins og stefndi því augljóslega í gott síðasta ár áður en farsóttin kom.

En hver á að borga skuldirnar?

Sífellt stagl um skuldir Seltjarnarnesbæjar heldur áfram. Fjárhagsstaða bæjarsins er mjög sterk og er raunar grunnur að frekari uppbyggingu. Eins og áður sagði voru engin ný langtímalán tekin á síðasta ári. Langtímaskuldir bæjarins námu í loks síðasta árs um 2.770 milljónum króna og lækkuðu um 40 milljónir milli ára. Skuldaviðmið bæjarsins er 67% en hámarkshlutfall samkvæmt lögum er 150%. Af tæplega 2,8 milljarða króna langtímaskuldum er rúmlega 1 milljarður færður á móti sem eign hjá ríkinu vegna hjúkrunarheimilisins Seltjarnar. Þetta stendur í ársreikningnum sama hvað minnihlutinn í bæjarstjórn vill þvæla lengi með þetta.  Á sama hátt stendur í skýringum með ársreikningnum, en ekki er fært sem eign vegna reikningskilastaðla, að Reykjavíkurborg skuldar og greiðir Seltirningum á næstu 20 árum um 600 milljónir króna vegna leigugreiðslna af fimleikahúsinu. Þetta þýðir að í raun skuldar bærinn ekki nema 1,2 milljarða í langtímaskuldir vegna þess að 1,6 milljarðar af 2,8 milljörðum eru greiddir af ríki og borg. Það sem er auðvitað merkilegast í þessu er að Seltjarnarnesbær á bæði mannvirkin enda var gengið kyrfilega um hnútana af hálfu bæjarins í þessum stóru málum.

Úr vörn í sókn með skynsemi að leiðarljósi

Rekstrarniðurstaða bæjarins, á tímum þeirra efnahagserfiðleika sem dundu yfir á síðasta ári, er varnarsigur og ekkert annað. Það hvarflaði ekki að Sjálfstæðismönnum á Seltjarnarnesi að fara inní baráttuna við Covid-19 með það eitt að vopni að hækka skatta á íbúana. Fyrir greiða Seltirningar þriðja hæsta útsvar á landinu skv. opinberum tölum. Eftir aðgerðir síðustu missera stöndum við vel að vígi. Sjálfstæðismenn hér í bæ hafa borið gæfu til þess að vinna hlutina af yfirvegun, ábyrgð og skynsemi. Það hefur ekkert breyst. Erfiðri varnarbaráttu er senn að ljúka og byrjað er að byggja upp í sókn. Yfir því er hægt að gleðjast. Næst á dagskrá eru íbúðakjarni fyrir fatlaða og nýr leikskóli en hér fjölgar brátt íbúum verulega. Ný byggð rís við Gróttu, Gróttubyggð, og framundan eru tækifæri og bjartir tímar. En þeir koma ekki að sjálfu sér frekar en fyrri daginn.

 

Magnús Örn Guðmundsson

Formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar